Vatnsdeigsbollur með skemmtilegu innihaldi

Jæja það er búin að vera hálfgerð matreiðslukeppni í gangi á meðal áhugakokka á lágkolvetnamataræðinu. En við reynum af öllum mætti að ná að mastera vatnsdeigsbollur fyrir bolludaginn enda eru myndir farnar að flæða um á öllum miðlum. Bakarí, bloggarar og verslanir auglýsa með þvílíkt girnilegum og útblásnum vatnsdeigsbollum með krispý topp og súkkulaðiglassúr lekandi niður hliðarnar yfir stinnan rjómann. Þetta getur gert mann alveg urlaðan úr græðgi og auðvitað vill maður ná þessum áhrifum og útliti ef mögulegt er.

Það hafa margir reynt við þetta og ég hef yfirleitt endað á hefðbundnum oopsies með smá sætu til að redda bolludeginum. Í ár prófaði ég að blanda saman nokkrum mjöltegundum og bætti út í leynitrikkinu, COLLAGEN próteini sem kom svona skemmtilega út. Þær tútnuðu bara vel út í ofninum urðu harðar að utan og mjúkar að innan svo ég er bara nokkuð sátt við útkomuna. Ég toppaði hollustuna með því að bæta Mct olíu í glassúrinn svo það má segja að rjómabolla Kristu 2019 sé stútfull af hollustu haha. Ef þið viljið prófa þá er uppskriftin hér. Aðferðina sá ég á blogginu hennar Maríu á PAZ en að sjálfsögðu þurfti að skipta út hveitinu fyrir allskonar lágkolvetna stöff.

Innihald bollur:

 • 230 g vatn
 • 115 g smjör
 • 1 msk sæta
 • 1/2 tsk salt
 • 40 g möndlumjöl ljóst, má líka nota fituskerta frá Funksjonell það kemur mjög vel út
 • 1 kúfuð tsk Xanthan gum
 • 25 g kókoshveiti
 • 30 g Collagen, Feel Iceland eða annað bragðlaust prótein
 • 3 meðalstór egg léttpískuð
 • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

 • Hitið saman vatn, smjör salt og sætu þar til vatnið fer að bubbla.
 • Setjið mjölblönduna út í og það er gott að fínmala aðeins í matvinnsluvél ef þið getið.
 • Hrærið stöðugt í pottinum á meðan blandan þykknar. Takið af hellunni og látið kólna í 5-8 mín.
 • Bætið nú eggjunum við einu í einu og hrærið kröftuglega og að lokum vanilludropunum.
 • Setjið deigið í sprautupoka og látið standa í 20-30 mín á borði áður en því er sprautað á plötu. Það má líka nota tvær skeiðar í verkið. 
 • Bakið bollurnar í 20-25 mín ca á 200° með blæstri í miðjum ofni og ekki opna allavega fyrstu 18 mín. Best er að opna sem minnst ofninn svo bollurnar falli ekki. Stundum er gott að stinga á bollurnar með trépinna til að losa út loftþrýsting.
 • Látið bollurnar kólna í ofninum með hurðina hálfopna. Þegar þær hafa kólnað þá skerið þið varlega í helminga og fyllið með rjóma og sultu eða því sem hugurinn girnist.
Deigið þarf að skilja sig frá pottinum og haldast saman í soppu. Setjið eggin út í eitt í einu og hrærið kröftulega á milli.
Látið bollurnar kólna alveg áður en þær eru skornar til helminga.

Krem:

 • 2 dl fínmöluð sæta
 • 2 msk kakó
 • 1 msk mct olía
 • soðið vatn eða kaffi
 • möndludropar

aðferð:

 • Þeytið allt vel saman, þynnið glassúrinn með kaffi eða soðnu vatni, bragðbætið með möndludropum.