Þessi færsla var styrkt af Slippfélaginu.
Elsku Alma barnabarnið mitt flutti loks heim til Íslands með foreldrum sínum í febrúar sl. en þá höfðu þau Mekkín og Arnar búið í Danmörku í 6 ár og eignast Ölmu árið 2017. Við Börkur fórum iðulega út til Kaupmannahafnar í heimsóknir en auðvitað er það ekki eins og að fá að umgangast þau oft í viku.
Þau fluttu fyrst inn á tengdaforeldra Mekkínar og bjuggu þar í 4 mánuði rúma. Það var því gleðiefni fyrir alla aðila þegar þau fundu loks draumaíbúðina. Reyndar ekki í Hafnarfirði en það mun breytast einn daginn.
En allavega ég fékk að skipta mér af meyjarskemmunni hennar Ölmu litlu sem er algjör snúlla og puntudúkka svo við ákváðum að gera herbergið hennar klárt fyrst allra enda aldrei átt eigið herbergi fyrr.
Ég fékk að velja liti hjá Slippfélaginu til að mýkja aðeins upp stílinn og fyrir valinu urðu litirnir Ylja sem er úr korti Soffíu Daggar/ Skreytum hús og Fallegur sem er frá Fröken Fix. Þessir litir voru svona aðalatriðið. Ég tók svo 2 tóna með bæði Hlýr sem er frá Sæju en hann var notaður á svefnherbergisvegginn hjá Mekkín og Arnari en ég nýtti hann einnig í skreytingar. Ég valdi svo bleikan tón úr litakorti með þessu og ákvað að búa til öðruvísi fjöll en eru oft máluð í barnaherbergi.
Þar sem ég lagði ekki í að láta prenta heilar filmur á veggina þá langaði mig að mála grunninn í fjöllunum í þeim tónum sem ég var sátt með og bað hana Freyju hjá Dekalfilmur að skera út form sem ég bjó til í tölvu. Ég valdi úr gráum tónum sem voru nokkuð hlutlausir með bleika partýinu og þetta kom ótrúlega skemmtilega út svona eins og semi veggfóður.
Ég ákvað líka að mála dúkkurúmið sem við Katla spreyjuðum svart á sínum tíma en við rákumst á það í einni af Sorpuferðunum okkar og gripum tækifærið og hreinlega hirtum það af vesalings manninum sem var sendur með það í ruslið. Geggjað krúttlegt bæði svart og svo núna bleikt.
Hillurnar í herberginu hennar fengum við úr Systur&Makar en við notuðum þær sem uppstillingu í barnahorninu og voru keyptar í IKEA á sínum tíma. Kallast SVALNÄS . Þær voru settar upp þannig að Alma gæti nýtt neðstu hilluna sem lítið skrifborð og var hún hæstánægð með þetta fyrirkomulag.
Litla skottið var hæstánægð með himnasængina sem mamma hennar græjaði en hún er einfaldlega úr tveimur gardínuvængjum úr Rúmfatalagernum og var þrædd upp á föndurhring og hengd upp með girni í krók sem afi Börkur boraði í loftið. Þetta hélst bara ægilega fínt.
Alma elskar að lesa sögur og bækur, hlusta á tónlist og sérstaklega menn spila á gítar það er alveg frábært að horfa á hana dilla sér. Bókahillan varð því að vera í færi og gott að geyma uppáhaldssöguna við rúmið. Svo veit ég að hún fær gítar í afmælisgjöf, hún kann ekki að lesa svo hún sér þetta ekki og þá verður hann að fá góðan stað líka.
Það var mjög gaman að dúllast í þessu fyrir litlu skottu og vonandi vex herbergið ágætlega með henni, ekki of barnalegt og hægt að breyta til þegar hún stækkar. Við eigumfleiri hillur sem væri hægt að tengja við hilluna en þetta er ákveðið hillukerfi svo hver veit nema afi birtist aftur með borinn einhvern daginn. Ég læt nokkrar myndir fylgja hér í lokin en þakka bara fyrir mig.