Ískrem eða “ICECREAM”

Já það eru víst margar týpur til af ís, mjólkurís, rjómaís, sorbet, kókosís, jógúrtís, veganís svo eitthvað sé nefnt. Það þekkja flestir rjómaísinn sem er oftast borinn fram á jólunum, stútfullur af eggjum, rjóma og ísnálum og svo þekkja margir týpískan ítalskan ís og sorbet en þá eru ber og bragðefni fryst með vatni og síðan er hann hrærður upp. Hér er uppskrift sem ég kynntist á námskeiðinu hjá honum Gulla konditormeistara en hann hélt námskeið fyrir Thermomix eigendur fyrir stuttu og lærðum við helling af góðum aðferðum og trixum hjá honum sem munu nýtast mér allavega í framtíðinni. Hann sýndi okkur aðferðina við þennan ís sem var víst hluti af lokaverkefninu hans að mig minnir og var hann með kanilbragði en íslögurinn var látinn liggja í bleyti með kanilstöngum í 2 klt áður en hann var frystur. Spennandi. Ég aðlagaði ísinn að ketó/lkl og kom hann stórvel út.

ísgrunnur:

 • 100 ml vatn
 • 500 ml rjómi, má nota laktósafrían
 • 4 matarlímsblöð, lítil í pakka t.d. Oetker
 • 150 g Nicks sæta 1:1 mér finnst hann haldast mýkri því hann er blanda af Xylitol og Erythritoli
 • 4 eggjarauður
 • bragðefni að eigin vali, t.d. látið blönduna fljóta yfir 2 vanillustangir í 2 klt, eða 7 kanilstangir, blandið með ferskum jarðaberjum, hindberjum, kaffibaunum, og notið hugmyndaflugið.

aðferð í Thermomix eða hefðbundin:

 • Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn í lágmark 5 mín.
 • Setjið bragðefnin sem við þið viljið nota í botninn á boxi og takið til hliðar.
 • Setjið nú önnur innihaldsefni í pott og látið krauma passið að sjóði ekki, gott að miða við 85°hita, hrærið rólega allan tímann. Látið malla í um það bil 7 mín. Ef notast er við Thermomix þá er inniahald sett í blöndunarskálina og stillt á 7 mín /85°/ hraði 2.5
 • Kreistið næst vatnið úr matarlíminu og bætið saman við. Ef notast er við Thermo þá setjið þið matarlímið í skálina og stillið þið á 10 sek/ hraði 2.5
 • Hellið blöndunni næst yfir í boxið með bragðefninu og látið í kæli í ca 2 klt. Ef þið notið ekki sérstök bragðefni sem þurfa að liggja í ísblöndunni þá má nota vanilludropa eða vanilluduft og frysta strax.
 • Næst er blöndunni hellt í klakabox eða form og fryst.
 • Þegar bera á fram ísinn er klakinn tekinn úr forminu og settur í matvinnsluvél, hér er Thermomix auðvitað ansi heppileg. Blandið 40 sek / hraði 6, setjið svo þeytispaðann í vélina og blandið aftur 30 sek / hraði 4. Önnur matvinnslutæki geta eflaust ráðið við en betra að gera í minni skömmtum í einu.