Snickerstertan

Það er alveg ótrúlegt hvað maður fer oft að gera allt annað en það sem maður ætti að vera að gera og það var akkurat það sem gerðist í kvöld. Ég átti að vera að pakka niður fyrir Akureyri, lita á mér augabrúnirnar eða undirbúa slideshow þegar ég rakst á bloggið hennar Maríu Gomez á Paz.is. Stúlkan sú er ein sú allra smekklegasta og ég hef sjaldan séð eins girnilegar matarmyndir og á blogginu hennar. Hún er ekki alveg komin í sykurlausa liðið en ég ákvað að bæta bara úr því og endurgera snickerstertuna sem hún var að pósta í dag. Ég fékk nokkur skilaboð frá fólki sem hafði líka séð þessa færslu og þau voru einmitt á þessa leið.. “ég var að vona að þú myndir flippa þessari … ” Þetta var lítið mál og ég gerði meira að segja tvær týpur af sósu fyrir þá sem vilja hafa hlutina einfalda og þá sem leggja í örlítið flóknari útgáfu. Karamellurnar frá Werthers eru sykurlausar en með maltitoli en það er líka hægt að gera uppskriftina frá grunni og þá án maltitols.

Kakan:

 • 2 egg aðskilin
 • 90 g sæta,( 30 g og 60 g) ég notaði Nick´s en má nota aðra sætu líka
 • 3 msk rjómi og 1 msk vatn
 • 20 g ósaltað smjör
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 35 g kókoshveiti
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/2 tsk salt
 • 1/4 tsk cream of tartar

aðferð:

 • Aðskiljið eggin.
 • Setjið smjör í pott og hitið ásamt rjóma, vatni og 30 g af sætunni. Látið sætuna leysast alveg upp. Leyfið blöndunni að kólna aðeins.
 • Bætið eggjarauðunum saman við einu í einu og hrærið létt á milli með sleif. Setjið að lokum þurrefnin út í og hrærið.
 • Ef þið notað Thermomix þá hitið þið smjörið, rjóma, vatn og sætu í 5 mín / 100°/hraði 1, bætið svo við eggjum, blandið 5 sek á hraða 1, þurrefnin fara út í og blandið 5 sek hraði 2.
 • Stífþeytið eggjahvíturnar, vanillu og 60 g af sætu þar til toppar myndast. Blandið varlega, eggjarauðublöndunni saman við hvíturnar og hrærið létt saman. Eggjahvítur má líka þeyta í Thermomix en þrífið þá vel skálina á milli.
 • Setjið deigið í form, hringlaga eða ferkantað og bakið í 180° heitum ofni með blæstri í ca15- 20 mín. Mæli með því að nota smjörpappír í formið til að auðvelt sé að ná kökunni úr. Kókoshveiti á það til að festast nánast við allt.
 • Passið að kakan brenni samt ekki því kókoshveiti þarf lítið til að brenna.

Rjómi:

 • 250 ml rjómi ég nota alltaf laktósafrían
 • 25 g niðurskorið sykurlaust súkkulaði, t.d. Cavalier 85%
 • 15 g fínmöluð sæta

aðferð:

 • Þeytið rjómann með sætunni
 • Blandið niðurskornu súkkulaði saman við og smyrjið á tertubotninn.
 • Kælið á meðan karmellan er útbúin, jafnvel setjið í frysti.

karamella i:

 • 1 poki af Werthers sykurlausri karamellu mjúkri
 • 1/2 dl rjómi
 • 1 tsk vanilla
 • 1/2 tsk gróft salt
 • 60 g macadamiuhnetur niðurbrytjaðar

aðferð:

 • Hitið við vægan hita í potti þar til karmellan er orðin fljótandi, bætið söxuðum hnetum við og salti.
 • Látið karamelluna kólna lítið eitt og hellið svo varlega yfir kökuna.

karamella II:

 • 60 g Nick´s sæta eða Sukrin Gold
 • 60 g Sukrin gold síróp
 • 20 g ósaltað smjör
 • 50 g rjómi
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/2 tsk gróft salt
 • 60 g macadamiuhnetur niðurbrytjaðar

aðferð:

 • Hitið í potti þar til fer að krauma.
  Blandið hnetum saman við og salti og hellið yfir kökuna þegar karamellusósan hefur kólnað lítið eitt.
 • Aðferð með Thermomix:
  Setjið allt hráefni í eldunarskálina og stillið á 35 mín / VAROMA / hraði 1