Spínatsalat með makadamíuhnetum

Aftur kem ég að henni Siddý frænku minni sem bauð upp á samskonar salat og þetta í boði fyrir nokkrum árum. Þá var hún með waterchestnuts í salatinu sem gefa stökkt og gott bragð en þar sem þær eru ansi háar í kolvetnum skipti ég þeim út fyrir makademiur. Ég breytti uppskriftinni töluvert hvað varðar að nota súpumix en ég notaði í staðinn tzatziki kryddið frá Kryddhúsinu sem gaf því æðislega gott bragð. Þetta salat er tilvalið í saumaklúbbinn ofan á heimabakað hrökkkex.

innihald:

 • 80 g makadamíuhnetur
 • 30 g rauðlaukur
 • 150 g spínat
 • 80 g sýrður rjómi 36%
 • 80 g mæjones
 • 1 tsk tzatziki krydd frá Kryddhúsinu
 • 1/3 tsk hvítlauksduft

aðferð:

 • Malið makadamiur í smáa bita. Ef þið eigið Thermomix þá duga 5 sek / hraði 8
 • Bætið við smátt skornum rauðlauk eða setjið lauk í Thermo og saxið 5 sek/hraði 5
 • Bætið spínati, sýrðum, mæjó og kryddið út í og maukið 8 sek/hraði 6 en hjálpið til með sleifinni ef spínatið vill ekki blandast. Ef þið eigið ekki Thermomix mæli ég með að saxa spínatið í matvinnsluvél.
 • Smakkið til með salt og pipar ef salatið er ekki nógu kryddað. Það er svo gott að láta það bíða yfir nótt í ísskáp því það er best daginn eftir.