24 tíma breyting á baðherbergi

Þegar maður dettur í breytingagírinn og hefur í raun engan tíma þá býr maður til tíma. Okkur hjónum datt í hug að mála loftið á baðinu og minnka aðeins krúsídúllurnar hér og þar. Það var gert á 24 tímum og erum við hæstánægð með útkomuna.

Hvernig í ósköpunum ?

Já þegar maður fær fluguna í höfuðið, lendir oft á hausnum á mér reyndar þessi blessaða fluga. En okkur hjónum datt reyndar báðum í hug að það þyrfti að mála loftið á baðherberginu, en að mála það nánast svart var kannski ekki það sem húsbóndinn hafði hugsað sér.

Ég hafði séð færslu á Skreytum hús hópnum þar sem einhver skvísa málaði baðið sitt svona dökkt og þá kom þetta móment, aha málum loftið og niður að flísunum svona dökkt líka. Þá poppar allt meira.

Við vorum alveg í rómantíska stílnum á baðherginu fyrir breytingar með antikhvítan tón í öllu, bæði wc rúlluhaldara, snögum og handklæðum. Skúffuhöldur voru í krómlit og wc takkinn snjáður og ljótur silfraður. Við vorum með stóran hvítagullslitaðan spegin með útflúri fyrir ofan vaskaborðið og allt mjög svo rómó. Alls ekki slæmt en orðið pínu þreytt.

En hvað kostar svona breyting ??

Þessu var auðvelt að breyta á mjög ódýran hátt. Okkur langaði að tóna við dökka loftið en við völdum litinn Dimmur í Slippfélaginu sem hún Sæja setti saman. Hann er svona koxgrásvartur og alveg mega smart.

Við keyptum því nýjar höldur í IKEA, svartar og aflangar sem við boruðum fyrir ný göt og nýja wc setu á undir 5000 kr, hún er kolsvört og mega svöl af klósettsetu að vera. Við keyptum svo ódýra snaga úr svörtu járni einnig í IKEA og svartan hringspegil í Söstrene Grene sem var jú á 5000 kr. VILTA hilla og kollur komu svo óvart heim úr IKEA sem var nú ekki alveg planið en þau voru bara punkturinn yfir i-ið.

Við skiptum út gömlu IKEA veggljósi fyrir Byko ljós með grindaskermum sem við spreyjuðum svarta og WC takkinn fékk spreyumferð með lakki úr Slippfélaginu. Alveg ótrúlega hvað er hægt að laga mikið með spreybrúsa.

Við lökkuðum gluggann á baðinu með lakki frá merkinu Tikkarila sem fæst í Slippfélaginu og kallast Helmi lakk.

Já það er alveg hægt að gera mjög fínt með töluvert litlum tilkostnaði en baðherbergið fékk alveg nýtt look á 24 klt. Við elskum fína baðið okkar núna, það verður svo miklu meira lúx eitthvað við svona dökkan lit og svo má alltaf poppa upp með smá litatónum, t.d. antikbleikum sem er í uppáhaldi núna hjá minni. Aukahlutir og punt koma frá Systur&Makar, Rúmfatalagernum, IKEA eins og t.d. klósettburstinn svarti og wc rúlluhaldarinn.

Vonandi höfðuð þið gaman að þessu innliti, við munum eflaust halda þessum breytingum áfram í einhverjum skömmtum. Ég á eftir að sýna ykkur stofuna og herbergi sonarins. Tek myndir þegar ég er búin að taka til.

Kveðja góð, María Krista.