Þetta deig sem kallast Oopsie er alþekkt um allan ketóheiminn og er oft notað sem svona byrjunar “brauð” fyrir þá sem eru að taka út kolvetnin og hveitið. Þessar bollur eru skotheldar og bragðast mjög vel. Það eru ekki allir sem nenna að stússa í vatnsdeigsbollubakstri og stundum klikka þær svo ef þið viljið vera viss um að fá bollur á mánudaginn þá eru þessar skotheldar. Þeytið hvíturnar mjög vel og blandið varlega saman við rauðurnar, það er trikkið.
Innihald:
3 egg aðskilin í hvítur og rauður
100 g rjómaostur
1/2 tsk vanilludropar
1 msk sæta, fínmöluð t.d. Sukrin Melis
1/2 tsk vínsteinslyftiduft
aðferð:
- Hvítur stífþeyttar sér með vínsteinslyftiduftinu.
Rauðurnar þeyttar í annari skál með rjómaostinum, vanillu og sætu. - Blandið svo 1/3 af hvítunum út í rjómaostinn, þeytið varlega. Bætið svo afgangnum við af hvítunum og veltið þeim saman við með sleikju.
- Setjið 1 msk af deigi varlega á smjörpappír. Verða um 16 helmingar eða 8 rjómabollur.
- Bakið við 160°hita með blæstri í 25 mín.
Glassúr:
2 msk kakó
2 msk brædd kókosolía
4 msk fínmöluð sæta
vanillu eða möndludropar eftir smekk
þynnið með kaffi
aðferð:
- Hitið kókosolíuna í skál, sigtið þurrefnin saman við og þynnið síðan með heitu kaffi þar til glassúrinn er passlegur.
- Ég elska möndludropa og setti sirka 1/3 úr tsk í glassúrinn.
- Þeytið 1 pela af rjóma og setjið í sprautupoka.
- Setjið sykurlausa sultu á neðri helmingana á bollunum, sprautið rjóma yfir og síðan fara hinir helmingarnir ofan á. Setjið glassúr yfir og njótið í botn. Gleðilegan bolludag.