Pizza full af góðu próteini – Carnivore

Þessi pizza kemur eflaust vel á óvart en eins og margir hafa tekið eftir þá hef ég verið að fikra mig inn á Carnivore brautina bara svona til að kanna hvort það eigi betur við mig að borða meira af dýraafurðum og minna af grænmeti. Þá er ég að bæta við mig af mettaðri fitu og rauðu kjöti og ef ég á að segja eins og er þá hefur mér sjaldan liðið eins vel. Sef betur, finn minna fyrir járnskorti, er miklu sterkari í ræktinni og líður extra vel í meltingunni. Ég mun því halda mig við kjöt og fitu eins lengi og ég hef lyst á. Það er aldrei gott að ákveða einn lífstíl fyrir lífstíð, enda ávísun á að gefast upp. Ég hef alltaf sagt að það sé gott að prófa nýja hluti í kannski viku til 10 daga og taka svo stöðuna á líðan og áhuga. Oftast ef maður nær 10 dögum jafnvel 2 vikum þá hefur svo margt gerst í líkamanum að áhuginn á að fara aftur í gamla farið, kannski sykur, unnin kolvetni og “skyndibita” dvínar og þig langar að halda áfram á beinu brautinni. Við erum svo andlega gíruð að það er óskynsamlegt að setja sér of stór markmið. Litlir góðir hlutir gerast hægt vil ég meina og þar sem við erum nánast ekkert nema vani og stýrumst mestmegnis af blóðsykurssveiflum þá þarf að byrja bara og sjá svo til. Ég get nánast lofað því að ef þú þraukar í 2 vikur þá er ekki aftur snúið. Ég gerði þessi pizzu síðasta föstudagskvöld þar sem ég vildi fá smá tilbreytingu í vikumatseðilinn, við hjónin borðum nánast bara rautt kjöt og fitu, salt og vatn og langaði að brjóta upp síðasta dag vikunnar með pizzu. Það var lítið mál að halda sig eingöngu við dýraafurðir og úr varð þessi fína próteinpizza sem við elskuðum, hún var extra mettandi en skildi okkur ekki eftir útþanin og bjúguð eins og vill verða með hvíta hveitibotninn, repjuolíur og unnið álegg. Mæli með að prófa.

Innihald í pizzubotn:

  • 400 g kjúklingabringur eða kjúklingahakk

  • 200 g ostur rifinn eða um 1 bolli

  • 1 stórt egg

  • 1/2 tsk salt, ég hef notað Redmond Real sem fæst á Iherb en gæða sjávarsalt er líka í góðu lagi

  • 1/2 hvítlaukur ( SOLO ) litlu laukarnir í körfunni, það má líka sleppa lauk

  • Álegg:

  • 2 msk rjómaostur

  • 1 bréf parmaskinka

  • pizzakrydd

  • rifinn parmesan

  • 3-4 blöð af basiliku

Aðferð:

  • Hitið ofn í 200° með blæstri.
  • Skerið bringur í hæfilega bita og setjið ásamt öllu innihaldi í matvinnsluvél, ég nota Thermomix og einfaldar það mjög leikinn.
  • Maukið allt þar til slétt og fellt, smyrjið deiginu á smjörpappír, gott að nota einnota hanska og bleyta aðeins fingurnar. Þjappið deiginu niður og mótið hring.
  • Bakið nú botninn í 20 mín.
  • Nú má setja álegg á pizzuna og ég notaði eingöngu dýraafurðir og hreint álegg eins og rjómaost og parmaskinku en það má nota pepperoni eða chorizo, beikon, hakk svo eitthvað sé nefnt.
  • Smyrjið rjómaosti yfir botninn, og rifnum osti, pizzukryddi og bakið í 10 mín á góðum hita, jafnvel 220 gráðum. Takið svo pizzu út og setjið parmaskinku á og rifinn parmesan ost, basiliku og njótið.