Gleðilegt nýtt ár elsku vinir!

Nú er árið hafið og hversu flott ártal, 2025 vó og mín orðin 51 árs, takk heimur. Margir hafa eflaust gert einhver áramótaheit, eða ætla að halda áfram að viðhalda góðum heilsuvenjum frá því í fyrra en hvað sem þið gerið þá bið ég ykkur að gera þetta allt fyrir YKKUR sjálf. Það gerir heldur enginn annar vinnuna en þú sjálf/ur og ef þessi bloggsíða getur aðstoðað við að létta þér lífið með uppskriftum af mat sem þér líður vel af þá er tilgangi mínum náð.

Sjálf hef ég verið að prófa mig áfram á svokölluðu dýrafæði eða Carnivore sem snýst um að borða eingöngu úr dýraríkinu í grunninn. Mataræðið svipar auðvitað til ketó en kannski aðeins stífara. Fita er nauðsynleg en kolvetni og trefjar ekki á boðstólum eins og finnst í grænmeti, ávöxtum og kornvörum og í plönturíkinu yfirhöfuð. Þetta virðist henta mér mjög vel og ég næ að viðhalda góðum vöðvamassa á þessu fæði sem og er laus við allar skyndi „cravings“ það líkar mér ósköp vel því verandi matarfíkill þá er mjög gott að hausinn sé til friðs, kroppurinn sterkur og skapið að sama skapi gott. Ég er á þessum blessaða breytingarskeiðs aldri og hef ekki þurft að nota hormóna hingað til, sef vel, er ágæt í liðunum þrátt fyrir slitgigt sem er líklegast komin til að vera en vil markvisst reyna að lækna líkamann með mat og sleppa lyfjum ef hægt er. Ég tek ákveðin bætiefni eins og D vítamín í stórum skömmtum því ég hef tröllatrú á því vítamíni sérstaklega upp á ónæmiskerfið mitt sem er ekki mjög sterkt eftir síendurteknar sýkingar í lungum og kinnholum og hef ekki tekið eina einustu sýklalyfjatöflu í marga mánuði en ég var komin á föst sýklalyf alla daga í smáskömmtum. Það eitt er frábær breyting að mínu mati og ég hef sleppt við umgangspestir hingað til þrátt fyrir kaldan vetur og barnabörn með leikskólahor.

Ég hef orku til að fara í ræktina oft í viku og elska að finna vöðvana stækka, engin Hulk samt sko og hef orku í að beygja mig og teygja, halda á barnabörnum og leik mér í snjónum. Það eru forréttindi skal ég segja ykkur. Prótein er nauðsynlegt fyrir okkur og sérstaklega okkur guggurnar á breytingarskeiði, við ættum að lyfta þungu og það er ágætt að miða við 1,2 – 2,2 g af próteininntöku á hvert kg af þeirri þyngd sem þú stefnir á eða ert ánægð með. T.d. ef kona vill verða 70 kg eða ER 70 þá er gott að miða við um 120 – 140 g af próteini á dag. Við eigum það til að borða töluvert meira af kolvetnum en próteini sem er byggingarefnið fyrir vöðvana og er svo nauðsynlegt.

Dæmi eitt stk egg er 6 g af próteini, Ribey steik 300 g er um 95 g prótein, 100 g af parmesan osti gefur um 38 g próteini.

Ein lítil dós af grískri jógúrt frá Bíó bú er um 14 g prótein.

Varðandi trefjar og hægðamál, þá er ég í toppmálum þrátt fyrir að trefjar séu nánast engar á matardisknum. Fitan virðist skila sér alla leið haha.

En varðandi bloggið og uppskriftirnar hér þá geta þær vel nýst öllu fólki hvort sem það aðhyllist carnivore, ketó, lágkolvetna, glúteinlaust eða hreinlega sykurlaust mataræði. Þeir sem vilja síður nota sætuefni eins og stevíu og erytritol geta notað náttúrulega sætu eins og hunang og döðlur en umfram allt reynum að elda frá grunni, forðumst fræolíur og veljum mettaða góða dýrafitu, það eru mín bestu ráð til ykkar og annað, matur með löngum innihaldslista er ekki matur, punktur og basta.

CARNIVORE – KJÖTFÆÐI

Aðeins áfram með Carnivore, ég hef prófað þetta mataræði áður og varð þá fljótt ansi leið á eggjum og hakki en þegar ég prófaði aftur núna og gaf mér lengri tíma að aðlagast, þá komst ég að því að mér líður fáránlega vel án grænmetis. Ég er ekki að fordæma grænmeti og ávexti en mér virðist allavega ganga vel án þessa fæðuflokka. Er á meðan er segji ég og því ekki að prófa áður en maður dæmir. Eina sem ég sleppi þó ekki er heilaga kakóið á morgnana og fæ mér eina og eina döðlu sem er ekki carnivore ég veit og hunang öðru hvoru ef ég þarf eða vil. Einhverjir vilja meina að þetta séu öfgar en er þá ekki líka öfgakennt að borða ALDREI kjöt ? Eða aldrei snerta neinar dýraafurðir og jafnvel lifa á fjöldaframleiddum gervivörum, gjörunnum skyndibita og sykurrusli. Tjahh, en hver gerir það sem hentar hverjum og einum.

Persónulega hef ég verið að ganga samhliða ættingja í gegnum alvarleg veikindi og ég hef séð hversu mikil áhrif breyttur lífstíll getur haft á fólk með eigin augum. Mitt markmið er að lifa sem lengst í heilbrigðum líkama því lífið er núna vissulega og ég vil lifa því vel sem lengst.

Fyrir mér er þetta nefninlega ekki endilega spurning um tímann sem við þjösnumst í gegnum lífið á verkjatöflum og plástrum heldur gæðin á meðan við lifum því og ég vil ekki mæla gæði í hvítu brauði, „kenny“ og skammvinnri sæluvímu eftir konfektmola… mér finnst ég bera ábyrgð, ábyrgð á að verða ekki meiri baggi á heilbrigðiskerfinu en þarf, ábyrgð á að vera til staðar fyrir afkomendur mína og þá sérstaklega barnabörnin og foreldra mína og láta gott af mér leiða gegnum seinnihluta lífsleiðar minnar. Eflaust eru ekki allir þarna en innst inni held ég að flestir séu sammála.

HVAÐ MÁ ! Oh þessi spurning kemur alltaf…

Hvað varðar mataræðið Carnivore þá eru nokkrar útgáfur til af því og hefur verið kallað ýmsum nöfnum. Mjög strangt carnivore sem leyfir engar undantekningar, og svo aðeins frjálslyndara og þá aðeins líkara keto. En það er enginn sem setur þér reglurnar, hér er um að ræða leiðarvísa og hugmyndir. Ég hef aðlagað mig að því sem heldur mér við efnið og læt ekkert skipa mér fyrir 🙂 Ég segjist ekki heldur vera 100% Carnivore, en alveg 95%.

x

KJÖTVÖRUR:

Ég reyni að kaupa sem mest beint frá býli, t.d. á Matland.is eða fer í Háls í kjós og fylli á frystinn. Nautakjöt er í uppáhaldi svo lambakjötið, folalda, svína og kálfa. Beikon er svo mergjað, sérstaklega frá Pylsumeistaranum eða öðrum býlum eins og Litli búgarðurinn sem nota ekki aukaefni og rækta skepnurnar í lausagöngu við frábærar aðstæður. Eins eru kjötvinnslur eins og B. Jenssen með gott úrval og Kjarnafæði svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki nauðsynlegt að velja íslenskt en mér finnst það bara einfaldlega best og oft hagkvæmara en löðrandi olíumarineraðar steikur úr stórmörkuðum. Ég nýti mér svo carpaccio, parmaskinkur, hamborgarabuff og hakk í miklu mæli sem fljótlegt snarl.

EGG:

Þau eru æði og bæði hefðbundin, andaegg og bara öll EGG. Ég borða oft upp í 8-10 egg á dag. Ég geri mér vöfflur og pönnukökur úr eggjum og hef notað gelatin og bonebroth prótein frá Heilsubarnum til að þykkja deigið og smá vanillu.

FITA:

Nautafita, (Tallow), Skírt smjör ( Ghee), Smjör, Beikonfita. Þetta eru bragðgóðar fitur og geggjað að steikja upp úr þeim. Ég hef gert eigið mæjones úr OLIFA steikingaroliu, sem er vissulega úr plönturíkinu en það má líka mauka soðin egg og smjör til að ná fram 100% mæjó.

Ég geri mínar eigin bernaise sósur því allar sem ég hef fundið hér á landi innihalda repjuolíu sem ég vil ekki sjá.

MJÓLKURVÖRUR:

Eru í takmörkuðu magni, allavega hjá mér og nota ég einna helst, smjörið, gríska jógúrt, rjóma og parmesan osta. Nota hefðbundinn ost í lágmarki og enga mjólk né tilbúna jógúrt. Sumir hafa komist yfir hrámjólk beint frá bónda og líkar vel. Umfram allt hafa þetta einfalt og gott. Ég get búið mér til ís úr eggjarauðum og rjóma með smá vanillu en ég læt vanilluna sleppa til þótt hún komi vissilega úr plönturíkinu.

SJÁVARFANG / KJÚKLINGUR:

Allt gott, líka sardinur og innmatur, lifur og allur pakkinn ef þetta er hreint og án viðbættra efna, olíu og sósujukks. Ég borða sjálf lítið af fisk en ég mæli alltaf með að borða fisk fyrir þá sem geta. Sumir láta sér ribeye duga alla daga en mér finnst það heldur einhæft og blanda aðeins fleiri kjötafurðum saman.

Hér er líka ágætis samantekt á þessum harðkjarna carnivore lista. Ég nota t.d. mikið beinaseyði, mjög gott og beinaseyðis prótein.

Upplýsingar:

Hægt er að afla sér fleiri upplýsinga á vefnum að sjálfsögðu og mæli ég með að skoða heimasíðuna hjá Ævari Austfjörð sem heldur úti síðunni www.carnivore.is

Eins eru margar stórstjörnur sem aðhyllast dýraafurðir vinsælar á netinu eins og Shawn Baker, Steak and butter gal, Maria Emmerich, Kelly Hogan og fleiri.

Þessi er einmitt að slá í gegn núna með bókinn sinni, Courtney Luna, Carnivore in the Kitchen 🙂