Hversu oft er hægt að breyta einu herbergi ?

Herbergið sem alltaf var verið að breyta …

Litla baunin …

Jæja , flestir ættu nú að vita að ég á eitt yndislegt barnabarn sem býr í Kaupmannahöfn. Þegar þær mæðgur stefndu á að heimsækja Ísland í fyrsta sinn ákváðum við hjónin að gera upp herbergi sem þjónað hefur ýmsum tilgangi, bæði verið barnahergi með kojum, vinnuherbergi, geymsla og ég veit ekki hvað.


Herbergið í miðju kafi og allt í rúst, múrinn að þorna og þó komin smá vonarglæta að það myndi klárast.

Vatn út um allt !!

Á meðan við hjónin heimsóttum fjölskylduna í Danmörku í fyrsta sinn gerðist það að heitavatnsrör sprakk í veggnum í vinnuherberginu og vatn lak um allt, eyðilagði panel á veggnum og var farið að skemma múrinn talsvert. Þetta var því næsta verkefni okkar hjóna.

Nú ákváðum við þar sem von er á heimasætunni með litlu baunina í nokkrar nætur að breyta þessari kompu aftur í svefnherbergi og þá gestarými. Við fáum nú stundum gesti sem vilja gista og því ekki að nýta tækifærið og útbúa almennilega svefnsvítu. 

Kristublátt var það heillin !

Við ákváðum strax að það væri gaman að mála herbergið í einhverjum skemmtilegum lit. Það er mikið “in” að  mála í gráu, dökkbláu og grænbláu og ég heillaðist strax af þeirri hugmynd. Þótt að herbergið sé lítið þá virkar oft bara kósý að mála í dökku og ég vildi strax mála alla veggina. Loftin fengu að halda sér hvít og gluggar sem og hurðir en allir veggir málaðir dökkir takk fyrir. 


Hér voru nokkrir skemmtilegir litir sem ég skoðaði mikið…

Ég nota Pinterest mikið og það hjálpar mikið við hugmyndavinnuna. Að sjá fyrir sér herbergi erum við systur nokkuð lunknar í en það er alltaf gott að sjá uppstillingar og fá nýjar hugmyndir öðru hverju.

En hér er útgangsmyndin mín. Ég elska hversu hrátt en hlýlegt þetta er. Gæti verið einhver sjúklega smart íbúð í Barcelona eða Frakklandi. Ef þú finnur einhvern stíl sem þú fílar þá er auðvelt að skreyta í kringum hann og finna hluti jafnvel sem leynast á heimilinu sem smellapassa.

Þegar var búið að undirvinna alla veggi, hamast á gömlu veggfóðri, múra eftir múrbrot píparans og spartla og pússa var hægt að grunna og svo mála allt herbergið. Liturinn sem ég fékk hann Magga hjá Slippfélaginu til að blanda með mér er tekinn úr litakorti en við dekktum þann lit um tón og út kom þessi skemmtilega gallabuxna, grá blái sem fékk nafnið “KRISTUBLÁR”. Hann var akkurat það sem ég var að leitast eftir, ekki of grænn, ekki fjólu ekki of væminn, ekki of baby heldur bara FULLKOMINN.

Ég mæli með því að hugsa út fyrir boxið og fá strákana í Slippfélaginu til að hjálpa ykkur svo þið séuð 100% ánægð. Ég valdi eins matta málningu og hægt var og höfðum við smá áhyggjur af því að hún myndi sýna allar misfellur en eftir tvær umferðir sáum við varla bungu. Matta áferðin drekkur í sig skellurnar og veggirnir virka flauelsmjúkir.Tvær umferðir dekkuðu vel og við gætum ekki verið meira ánægð með gæðin en merkið á málningunni er Tikkurila.

Gluggakistuna málaði ég með Epoxy lakki hvítu sem fæst í Slippfélaginu en það er tveggja þátta lakk sem er nautsterkt og þornar á sólarhring. Það er létt að vinna með það enda vatnsleysanlegt en eftir að búið er að blanda því saman þá verður það ónýtt eftir 3-4 klt í stofhita svo undirbúið allt vel og lakkið sem mest í einu. Líka hægt að blanda minni skammta í minni dollur.  Ég lakkaði í leiðinni gluggakisturnar í stofunni en þær voru allar með svona marmaraplasthúð þegar við keyptum húsið fyrir 14 árum.

Þá var komið að því að laga gólfið en það hefur ekki fengið mikla ást og umhyggju síðustu árin og þurfti að rífa upp gamla fúgu og endurfúga með ljósari lit. Það breytti ásýndinni töluvert og nú kallar þetta á að við gerum það sama við restina af húsinu :/ 

Kósý vefnaður gerir svo mikið !

Litasamsetningin á vefnaði og skrautmunum í meyjarskemmunni þurfti að tóna við veggina og ég valdi hörbrún/græn rúmföt í IKEA, fann brúndrappað einfalt rúmteppi sem kostaði tæpar 1500.- í Rúmfatalagernum og dásamlega blágræna flauels yfirbreiðu eða svona “Throw” á klink og baunir.

Púðann “Vinter” hafði ég spottað í nýju vetrarlínunni hjá IKEA og í þeirri ferð fundum við líka skáphurð á gamla geymsluskápinn sem hafði verið allsber síðustu 6 árin. Þvílík breyting en hurðin kallast GRIMO og er æðisleg, einföld og létt yfir henni. 

Ótrúlega fær þessi stelpa í höndunum.

Apaskottið fékk ég í jólagjöf frá Mekkín í fyrra en hún heklaði þetta krútt alveg sjálf eins og reyndar allt annað sem hún gerir alveg sjálf þessi dugnaðarstelpa.

Loftljósið fékk ég í IKEA en það benti mér einn snapvinur á að það er hægt að sleppa neðsta partinum á Sinnerlig ljósinu vinsæla enda hefði það alveg gleypt upp þetta litla herbergi. Það kom ótrúlega vel út og ég gæti ekki verið ángæðari.

Myndaramminn í gluggakistunni er frá Nkuku og fæst í Systur&Makar. Eins seljum við grafíkina frá Kristinu Gordon en hún skapar ævintýraheiminn Yap Yap og erum við ótrúlega stolt af því að fá að selja verkin hennar í versluninni okkar.

Lampann fékk ég í Söstrene Gröne og er hann með steyptum botni. Ég fíla vel þennan þurra hráa stíl og held að Barcelona fílingurinn náist nokkuð vel með réttum hlutum. Skartgripaboxið er Nkuku og fæst í Systur&Makar.

Mottumál voru næst á dagskrá en þessi fallega motta var keypt í Rúmfatalagernum og heitir BALSATRE. Fékk þetta eintak í Skeifunni en held að hún sé að seljast upp, týpískt. 
 

Glingrið í glugganum fæst hjá okkur í Systur&Makar og er frá merkinu Nkuku, hægt að skoða verðin hér. Kötturinn er ekki falur en hann heitir Fjóli og hann er eitthvað að misskilja tilgang þessa herbergis.

 Less is more ..

Ég mæli með því að kaupa ekki of mikið af sama litnum og endilega brjóta upp með smá litatwisti eða áferð. Ég tók t.d. 2 ljósgræna púða í IKEA til að setja sem höfðagafl en ég ákvað að hengja litla gardínu stöng á vegginn við höfðagaflinn með leðurborðum og hengja hreinlega 2 púða þar á í stað þess að taka veggpláss frá herberginu í gafl. Rúmið þurftum við að stytta í 190 cm því breiddin á herberginu er ansi tæp en það var ekkert mál, við söguðum bara af og settum ný göt í endana.  Við vonum svo bara að gestir okkar séu ekki endilega yfir 2 metrar á hæð. 

Stólinn spanskgræna fékk ég í Söstrene Grene sem og lítið hliðarborð og blaðagrind sem mér fannst alveg ferlega sæt. Ég veit að ég á nóg af dóti en það er nú alltaf gaman að kaupa smá nýtt. Rúmið átti ég samt 🙂 

Messing er bilað smart en ég ákvað að fara ekki alveg overboard í að kaupa allt í messing, því tískusveiflur koma og fara og auðveldara að tóna svarta liti við ný trend. Tók samt litlu messingpödduna í TIGER því hún gargaði alveg á mig og tvo kúpla í IKEA sem verður þá hægt að nota sem jólaskraut ef gull og mess dettur út.

Myndir og grafík átti ég og kom bara fyrir í fallegum römmum en plakatið Skapaðu þína eigin hamingju fæst hér hjá Systur&Makar.

Glugginn litli er orðinn pínu gamall og lúinn en ég ákvað að mála hann alveg dökkan, ekki skilja eftir hvítt í sjálfum karminum og fékk þetta fallega kertaljós í INDISKA í Kringlunni og fannst það alveg setja punktinn yfir i-ð.

Macrameteppið fékk að hanga þarna meðan húsmóðirin hugsar sig um. Það er ofsalega hlýlegt og fallegt, en spurning hvort því sé ofaukið. Fyrir áhugasama þá fæst það hér.

Herbergið varð smátt og smátt ferlega huggulegt og á endanum held ég að dótturinni og litlu stúlkunni hennar eigi eftir að líða vel hér en pabbinn þarf víst að rjúka aftur til Köben í læknanámið sitt. Þessi tvö eru ótrúlega dugleg bæði í námi, vinnu og uppeldi og ég er yfir mig stolt amma sem hér skrifar.

Kveðja góð, María Krista.