Snickersstykki – Vinsæl

Það er nú hægt að gera allskonar útfærslur af hrákökum eða fitubombum og hér er ein sem er nokkuð fljótleg, eða allavega einföld. Ég var í smá viðtali hjá Evu Laufey og Svavari í Bakaríiinu á Bylgjunni og þar sem þau töluðu ekki um annað en kökuna sem Eva bakaði í gær þá langaði mig í eitthvað svipað. Þetta er mjög gott og ekki ósvipað hnetustykkjunum mínum en kannski ennþá auðveldara fyrir þá sem ekki nenna miklu brasi.

Innihald:

  • 2 dl rjómi

  • 50 g smjör

  • 40 g Sukrin Gold

  • 60 g Sukrin Gold sirup (um 3 msk )

  • 50 g makadamiuhnetur

  • 50 g möndlur

  • 50 g heslihnetur eða möndlur

  • gróft sjávarsalt um 1/2 tsk

  • 2 Sukrin súkkulaðistykki til að setja á toppinn

  • 1 tsk kókosolía

aðferð:

  • Hitið smjör í potti, bætið sætunni við og sírópi og hrærið.
  • Hellið rjómanum saman við og hitið á meðalhita í 30 mín jafnvel 40 mín. Passið að hræra reglulega og haldið hita eins jöfnum og hægt er án þess að sjóði upp úr.
  • Brytjið hneturnar smátt, má nota matvinnsluvél og hellið saman við karmelluna þegar hún er tilbúin, saltið. Hellið blöndunni í brauðform, best að nota silikonform. Frystið.
  • Þegar búið er að frysta blönduna í 30 mín er hægt að hella bræddu súkkulaði yfir, gott er að hita Sukrin stykkin í örbylgjuofni og bæta við 1 tsk af kókosolíu til að mýkja upp. Hellið yfir, stráið smá grófu salti yfir ef þið viljið og frystið aftur.
  • Skerið í aflanga bita og eigið í frysti þegar sykurpúkinn mætir á svæðið.