Að reisa hús á 4 dögum !

Já það er spurning, mundi þetta ganga upp hjá okkur. Í september var sem sagt búið að saga ofan af húsinu okkar og við stóðum þarna uppi stórskuldug með gulan kubb í grasi og drullu. Þar sem það var búið að saga sundur vatnslagnir í ofnakerfið og rafmagnið farið þá var ástandið frekar svakalegt. Við vorum þó alveg hörð á að sofa í húsinu allan tímann í framkvæmdunum og það hófst, nema jú eina nótt sem rigndi eldi og brennisteini og við ofnalaus þá gáfumst við upp og gistum í útikofanum í garðinum.

Tengdapabbi mætti daginn eftir og græjaði bráðabirgða lögn með Berki sem lögð var um allt hús, s.s. slöngur á gólfinu sem tengdar voru í ofnana. Rafmagn var tengt framhjá en við vorum samt bakaraofns og helluborðslaus í heilt ár. Þá var nú gott að eiga Thermomix og Airfryer.

Þar sem gatið ofan í plötuna var tekið viku áður en húsið skyldi reist þá rigndi að sjálfsögðu ofan í húsið og ef við Börkur vorum ekki vakin og sofin á vatnsryksugunni þá lak vatn inn í svefnherbergi sem við stigum í á morgnana. Þetta voru því vaktaskipti og svefnlausar nætur þar til hægt var að loka húsinu.

Nú stóð húsið sköllótt og tilbúið fyrir hæð nr 2 og næsta mál var að fá Adda vin okkar hjá Fraktlausnum til að koma fletinu með húseiningunum niður veginn til okkar. Hann hafði nú kíkt á þetta nokkrum mánuðum áður og taldi þetta vera lítið mál. En við erum að tala um 16 metra langt fleti á aftanívagni sem þurfti fyrst að sækja í Þorlákshöfn. Húsið hafði ferðast til landsins í skipi frá Austurríki og stefnan var að hefja reisingu á mánudeginum 20. sept. Þetta var allt skipulagt af Element mönnum enda vanir menn á ferð. Teymi frá þeim var væntanlegt í vinnu á mánudeginum og húsið yrði reist á 3-4 dögum. Þetta er mjög sniðugt fyrirkomulag því við hefðum líklega ekki náð að redda mannskap í svona flókna aðgerð og því margborgar sig að fá tilboð í svona verkefni með reisingu og flutning á staðinn.

Addi ákvað að best væri að koma með fletið sunnudaginn 19. september. Ekkert stressandi tímasetning svona daginn fyrir reisingu haha. Kraninn hans Ella okkar frá Smákrönum þurfti að koma á laugardeginum því hann þurfti að komast næst húsinu, svo fletið í bílastæðið fyrir framan og engu var hægt að breyta fyrr en húsið væri reist og fletið sótt nokkrum dögum síðar.

Þarna mátti því engu skeika og stressið í okkur hjónum var töluvert. Við smelltum okkur þó á árshátíð hjá Thermomix sem haldin var í Grímsborgum frá föstudegi til laugardags og á meðan kláraði sonurinn og tengdadóttirn að sjóða síðustu stífurnar. Meiri bilunin en þetta gerðum við bara!!.

Sunnudagurinn 19.sept rann upp og Addi hringdi, hann og Maggi bróðir hans voru að leggja af stað. Við tók svo mesta ævintýri sem ég hef upplifað. Bakka þurfti bílnum alla leið niður heimreiðina sem er töööluvert löng og brött. Það er algjört kraftaverk að þetta hafi hreinlega gengið upp, þeir bræður leiðbeindu hvor öðrum í síma á meðan vagninum var bakkað meter fyrir meter niður veginn. Ég er ekki frá því að við höfum fengið nokkur grá hár þarna, allavega grátt skegg.

Ótrúlegt en satt þá hófst þetta og við lofuðum því að þeim yrði boðið í fyrsta matarboðið í húsinu ( sem gekk nú nokkuð vel eftir svei mér þá) Algjörir snillingar á ferð og mæli með þeim heilshugar. Hér má sjá myndband tekið upp á töluverðum hraða sem sýnir þessa snillinga að verki.

Veðrið lék við okkur þennan daginn en daginn eftir, mánudag fór að hvessa og jú jú það kom slydda. Verktakarnir frá Verkvit/Element mættu samt á slaginu 08.00 og stóðu sig ótrúlega vel. Hífing hófst á gólfplötunum mjög fljótlega og á milli kaffipása þá byrjaði höllin að rísa. Smákranar eiga heiður skilið að ná að hífa einingarnar í allskonar vindátt og þetta gekk alveg ótrúlega vel. Á fjórum dögum sirka þá var húsið komið vel á leið og vinnupallar frá Vinnupöllum byrjaðir að rísa jafnóðum. Þetta krafðist allt mikillar skipulagningar, panta þarf vinnupallana tímanlega og allt þarf að vinna saman.

Ég læt hér myndir fylgja frá reisingunni en þetta ferli var ótrúlega skemmtilegt.

Ég mun halda áfram í næsta pósti að fjalla um það sem tók við. Gluggaísetning, bið eftir gluggum og smá klúður á leiðinni.