Afmælis súkkulaðikaka

Þegar Kiljan frændi verður 1 árs þá gerir María frænka köku. Mamma hans nefndi það svona í rælni hvort ég vildi koma kannski með köku svona fyrir sykurlausa gengið og jú jú áskorun sett !! Ég hef dáðst af þessum svokölluðu “drip” kökum sem eru svo fallega skreyttar og krúttlegar að ég ákvað að gera eina sæta fyrir frænda minn. Ég bakaði 3 súkkulaðibotna og notað marengssmjörkremið mitt sem klikkar aldrei, ekki ef ég nota hárblásarann haha.. en svo var lítið mál að útbúa lágkolvetna “drip” úr smjöri og súkkulaði og því lítið annað að gera en að setja kökuna saman.

Kakan sjálf:

 • 80 g Sukrin Gold
 • 200 g Sweet like sugar
 • 120 gmöndlumjöl
 • 110 g kókoshveiti
 • 80 g kakó
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 1/2 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk salt
 • 3 egg
 • 125 ml rjómi og 125 ml vatn
 • 50 ml bragðlaus olía, t.d kókosolía eða Steikingarolía Olifa
 • 2 tsk vanilla
 • 250 ml sjóðandi vatn

aðferð:

 • Stillið ofn á 170° hita með blæstri
 • Sjóðið 250 ml af vatni og geymið á vísum stað
 • Blandið rjóma við vatn í skál
 • Blandið öllum þurrefnum saman í skál ásamt sætunni
 • Bætið eggjum út í þurrblönduna ásamt rjómablandi, olíu og vanillu.
 • Hrærið, t.d. með handþeytara og þegar allt er komið þá fer soðni vatnsbollinn saman við og þeytt áfram en ekki of lengi.
 • Skiptið deiginu í 3 18 cm form, eða 2 stærri form, allt eftir vali hvers og eins.
 • Látið deigið standa í 15 mín.
 • Bakið svo í 35 mín eða þar til botninni er fullbakaður í miðju.

Kremið:

 • 225 ml Fibersýróp glært
 • 3 eggjahvítur eða um 90 g úr brúsa
 • 80 g fínmöluð sæta, ég nota Good good
 • 250 g ósaltað smjör
 • 1/3 tsk salt
 • 1 tsk vanilludropar, eða bragð að eigin vali

aðferð:

 • Byrjið á því að setja upp pott með vatni og hitið. Setjið hrærivélaskál, gott að nota stálskál ef þið eigið slíka ofan á pottinn ( hafið pottinn það lítinn að skálin snerti ekki vatnið) og vigtið í hana sætu, sýróp og eggjahvítur. Þeytið eða pískið saman þar til sætan hefur leyst upp í skálinni og blandan er hætt að þykkna.
 • Þurrkið nú skálina að neðan og færið yfir í hrærivélina. Setjið allt á fullan kraft. Notið þeytarann á hrærivélinni.
 • Þegar marengs hefur myndast í skál og skálin orðin köld aftur eftir vatnsbaðið þá má setja smjörið saman við í litlum skömmtum.
 • Skiptið yfir í K spaða ef þið eigið slíkan eins og fylgir mörgum standandi hrærivélum því smjörið þeytist betur með honum. Smjörið á að vera kalt viðkomu en samt það mjúkt að það myndist dæld ef fingri er þrýst ofan í það.
 • Þeytið vel á milli hvers smjörbita og endurtakið þar til allt er komið saman við kremið.
 • Blandið næst bragðefnum við, t.d. vanillu og síðan salti og þeytið áfram.
 • Ef þið viljið lita hluta af kremi þá skiptið þið kreminu í skálar og blandið með matarlit.

Súkkulaði “drip”

 • 70 g smjör
 • 85 g sykurlaust súkkulaði í bitum

aðferð:

 • Hitið á vægum hita og hrærið stöðugt þar til blandan er slétt og glansandi, hellið í brúsa með stút og látið kólna vel.
 • Þegar þið eruð búin að smyrja kökuna með smjörkreminu þá er gott að setja hana í kæli eða frysti í smá tíma.
 • Takið nú kökuna úr kæli og byrjið að skreyta með súkkulaðinu. Látið einn dropa á kantinn á kökunni í einu og leyfið honum að renna, gerið koll af kolli allan hringinn og sprautið mismiklu súkkulaði á hverjum stað svo “drippið” verði óreglulegt. Klárið svo úr brúsanum ofan á kökuna og sléttið úr.
 • Kælið örstutt og skreytið síðan með marengstoppum, smjörkremið með lit, pappafígúrum, súkkulaði eða hverju sem er.
Fallegt að skreyta með marengstoppum, bræddu súkkulaði og smjörkremi.