Vá þetta ár hefur verið svo stormasamt. Það hefur svo sannarlega sett mark sitt á mitt líf og annarra og ég hef fengið minn skammt bæði af gleði, góðum árangri og erfiðleikum ef svo mætti segja.
Ég tók mjög afdrifaríka ákvörðun í byrjun árs að ljúka samstarfi mínu við systur mína og dró mig úr rekstrinum á fyrirtækinu okkar Systur&Makar. Ég trúði þá og trúi enn að þetta væri besta ákvörðunin fyrir okkur báðar og held að það sé alveg að rætast hjá okkur báðum svei mér þá. Stundum er gott að sleppa björgunarhringnum og taka erfiðar ákvarðanir og með því skapast ný tækifæri og er hvatning til að gera nýja hluti og breyta til úr norminu. Það er ekkert gaman að festast í sama sporinu og ég hef verið iðin við að koma mér upp úr hjólförunum þegar mér finnst ekki gaman lengur. Þá á ég það til að henda mér út í óvissuna og treysta á innsæið en það er það eina sem við getum gert, treysta innsæinu okkar og leita uppi tækifærin á eigin forsendum.
Mikið hefur þetta ár verið lærdómsríkt og alls ekki eins slæmt fyrir mig og eflaust marga aðra sem eiga um sárt að binda. Eftir að hafa gefið vinnu mína í ketóheiminum síðustu 7 árin þá staldraði ég við og ákvað í kjölfarið að ef ég ætlaði að halda áfram að setja efni á bloggið mitt og halda úti þeirri síðu með tilheyrandi kostnaði að þá þyrfti ég að fá laun fyrir það sem ég er að gera. Eflaust þótti einhverjum nóg um en eins og það hefur verið ánægjulegt að hjálpa fólki dag sem nótt og prófa mig áfram með uppskriftir sem fólk hefur fengið afnot af og jafnvel hent helling af dýrum hráefnum í ruslið þá er lífið ekki alveg svona einfalt og frí uppskrift borgar ekki rafmagnsreikninginn minn.
Ég fékk dásamlegar viðtökur strax í upphafi og er óendanlega þakklát fyrir ykkur allir mínir fylgjendur. Pressan hefur aukist aðeins en nú set ég bloggið alltaf í fyrsta sætið. Ég er með frábær fyrirtæki með mér í liði sem hafa staðið mér nánast frá upphafi, Icepharma, HB – heildverslun, Nettó og smærri samstarfsaðila og ég er þeim ævinlega þakklát fyrir það traust sem þau hafa sýnt mér. Ég vona að ég sé að sinna mínu starfi vel gagnvart þeim og vel eingöngu að sýna frá þeim vörum sem ég nota sjálf og ef ég hrifnari að einu vörumerki en öðru frá sitthvorri heildsölunni þá tek ég það fram. Vonandi hefur það skilað sér í gegnum tíðina og þið kæru fylgjendur hafið enn trú á mér.
Þessi miðill sem og aðrir miðlar mínir, bæði snapchat, instagram og facebook hafa líka hjálpað til við að koma fyrirtæki okkar hjóna á framfæri en markaðssetning í fjölmiðlum er dýr og með því að kynna fyrirtækið mitt, systur minnar og þeirra aðila sem ég dáist að og vil benda á þá tel ég að allir vinni. Vöruverði get ég haldið nánast sama ár eftir ár og með því að minnka yfirbygginguna þá gengur þetta upp. Tímarnir hafa svo sannarlega breyst og hraðinn í umhverfinu hefur aukist, auglýsingar herja á okkur úr öllum áttum og athyglinni er erfiðara að halda. Samfélagsmiðlar eru komnir til að vera og í bland við fría skemmtun og fróðleik fylgir oftast einhver auglýsing sem er jú viðurværi flestra sem starfa á þessum miðlum nánast eingöngu.
Ég hef hleypt fylgjendum mínum inn á heimilið mitt og inn í líf okkar eins og margir á samfélagsmiðlum gera. Hef deilt veikindum mínum í Covid móki, brjóstaðgerðum og niðursveiflum en einnig gleðilegum stundum og sigrum. Ég virði það að það vilja ekki allir láta sjá sig á miðlinum mínum og held friðhelginni fyrir þá sem biðjast undan því en þetta er fín lína og ég þarf að læra betur á hvað er í lagi og hvað ekki. Þarf að æfa mig í að leggja frá mér símann þegar á við en vá það er oft erfitt að finna jafnvægið milli einkalífs og vinnu.
Ég er óendanlega stolt af fjölskyldunni minni og vildi helst hrópa af hæsta tindi öllum þeirra afrekum en það þarf að halda ákveðnum hlutum fyrir sig og á litla landinu okkar þar sem allir þekkja þá þarf ég að læra að hemja mig. Ég er að eignast mitt annað barnabarn í apríl á næsta ári og það er svo margt spennandi að gerast hjá okkur Berki hvað varðar húsið okkar að ég er að missa mig úr gleði. Ég vona að þið verðið samferða á næsta ári ég mun halda áfram að vinna mína vinnu og vonandi hjálpa einhverjum sem vilja halda áfram að sinna heilsunni, fræðast um allskonar hluti og kannski bara hafa gaman af vitleysunni í mér og stússi. Ég stefni áfram uppá við, langar að koma fleiri vörum í framleiðslu undir mínu nafni í samstarfi við Nettó og hlakka mikið til komandi mánaða. Húsbyggingar, vöruþróun, bakstur og ömmuhlutverkið jeminn..
Með áramótakveðjum frá mér til ykkar elsku vinir, María Krista.