Avocado mæjónes

Að gera sitt eigið mæjónes er náttúrulega best í heimi. Þá vitum við nákvæmlega hvað það inniheldur, hvernig olíur eru notaðar og þar fram eftir götunum. Hér er mjög einföld og góð uppskrift af mæjónesi sem dugar vel í heila viku ef ekki lengur, út á salöt, brauðsneiðar og margt fleira. Ég notaði avocadoolíu en það mætti líka nota bragðlausu steikingarolíuna frá OLIFA.

innihald:

 • 200 ml olía, avocado eða steikingarolía OLIFA
 • 1 egg
 • 1 tsk sinnep, Dijon
 • 1/2 tsk gróft salt
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1/3 tsk hvítur pipar

aðferð:

 • Setjið allt nema olíuna í blandara, ég nota Thermomix.
 • Blandið saman í 30 sek ca þar til eggið hefur þeyst vel með kryddunum.
 • Hellið næst olíunni í mjórri bunu ofan í gatið á blandaranum ef þið notið slíkan, eða hellið í nokkrum skömmtum saman við eggið og þeytið á milli nokkuð rólega eða með nokkrum skiptum þar sem ýtt er á takkann. Ef þið notið töfrasprota þá má hella olíunni allri saman við í hátt glas og lyfta honum hægt upp á fullum snúning þar til mæjonesið blandast vel saman.
 • Ef þið notið Thermomix þá hellið þið olíunni á lokið rólega og hafið mæliglasið í gatinu, þá seytlar olían rólega niður, stillið á 2 mín/hraði 4
 • Kryddið meira ef þörf þykir og geymið síðan í ískáp í lokuðu íláti.