Avocado og eggjasalat

Avocado er ein af ofurfæðum veraldar. Ástæðan er meðal annars sú að þessi sérstaki ávöxtur er stútfullur af Omega 3, magnesium, potassium og góðum trefjum. Avocado inniheldur einnig A, C, D, E og K vítamín ásamt nokkrum B-vítamínflokkum. Fyrir lágkolvetnamataræðið þá er avocado merkileg og jafnframt mikilvæg afurð. Fitan í avocado er talin afar holl og á að lækka kólestról og hafa góð áhrif á hjarta og æðakerfið.

Fyrir utan allt þetta er avocado góður skyndibiti og geggjað að bæta því við í hverskonar rétti til að ná inn hollri fitu.

Hér er uppskrift af sniðugu millimáli sem gæti líka hentað sem léttur hádegisverður. Þetta er salat með eggjum og avocado sem væri mjög smart á morgunverðarborðið og þá sérstaklega ef það er borið fram í hýðinu af avocadoinu. Ferlega huggulegt ekki satt ?

Innihald:

 • 3 soðin egg
 • 1 stórt avocado eða 2 lítil
 • 1 msk Hellmans mæjones
 • safi úr 1/2 lime eða 1 msk sítrónusafi
 • 2 msk brytjuð steinselja
 • 2 msk rifinn ostur, mosarella eða parmesan
 • salt og pipar

Aðferð:

 • Brytjið eggin smátt niður í skál
 • Skerið avocado í tvennt og skafið innan úr því, passið upp á hýðið ef þið ætlið að nota það til að bera fram salatið í því. Merjið avocadoið í mauk og bætið safanum af lime eða sítrónu saman við.
 • Bætið út í mæjonesi, kryddi og rifnum osti og hrærið þessu vel saman.
 • Berið salatið fram í hýðinu eða fallegri skál og stráið ferskri steinselju yfir.