Bananabrauð, án banana !

Já ert þú bananabrauðsfíkill ? Ég elska lyktina af bananabrauði en get ómögulega komið ofan í mig banana eins merkilegt og það er nú. Það hentar mér því ágætlega að baka bananabrauð án banana !! Bananar eru ekki beint æskilegir á lágkolvetnamataræðinu og það truflar mig ekki neitt en ég veit að mörgum finnst lyktin og bragðið af nýbökuðu bananabrauði eitthvað sem erfitt er að standast. Hér er komin fín útgáfa af brauði sem passar fullkomnlega með seinna kaffinu. Fyrir þá sem vilja finna bananabragðið koma í gegn þá er hægt að kaupa bananaextract t.d. í Allt í köku. Mín vegna þurfti það ekki því bragðið minnir alveg nóg á bananabrauð en fyrir allra hörðustu bananaaðdáendurnar þá er það hægt og bananabragðið finnst sko í gegn. Þú finnur það hér. 

Innihald:

 • 150 g möndlumjöl, ljóst
 • 100 g sæta, gott að mala fínt
 • 1/2 msk lyftiduft
 • 1/2 tsk kanill
 • 3 egg
 • 1 msk Fiber sýróp gold
 • 1 tsk vanilludropar
 • 80 ml möndlumjólk
 • 1/2 tsk bananaextract ef þú átt, má sleppa fæst í Allt í köku
 • 60 g sýrður rjómi
 • 6 msk brætt smjör

Aðferð:

 • Blandið saman öllum þurrefnum í skál og hrærið.
 • Pískið saman egg, sýrðan rjóma, vanillu, sýrópi og möndlumjólk í annarri skál ásamt smjörinu og bætið svo þurrefnum saman við. Þetta verður svona fljótandi deig.
 • Látið standa í skálinni í 5 mín en hellið svo deiginu í aflangt form, silikon t.d. eða klæðið álform með smjörpappír og bakið í því.
 • Það er frjálst að setja hnetumulning yfir deigið áður en bakað er, t.d. valhnetur eða pekanhnetur. Ég setti múslí sem ég átti og það kom mjög vel út.
 • Gott að baka í 40-45 mín á 170° hita. Það borgar sig að láta brauðið kólna í forminu og jafnvel yfir nótt. Þetta brauð er langbest daginn eftir.