Bismark nammi

Hæ ég heiti María og ég elska piparmyntunammi.. það er bara þannig. Ég smakkaði einhverntíma svona piparmyntu bismark bark og gjörsamlega féll fyrir þessu ameríska combói, dökku súkkulaði, hvítu og svo mulinn bismark piparmynta jesús í himnaríki. Ég veit að bismark er ekki sykurlaus og fæst líklega ekki nema þá með maltitoli, eða einhverjum óþverra svo ég ákvað að reyna við þetta sjálf og nota Thermomix 6 í verkið. Ég nota sítrónu til að blandan kristallist ekki, (ráð frá Fídó minni sem er gangandi mataralfræði orðabók) svei mér þá og með 4 tilraunum með matarlit og stússi þá heppnaðist þetta. Ég keypti hvítan matarlit í Allt í köku svona upp á lookið en í raun mætti alvega gera án þess, bara verður þá glær brjóstsykur. Ég bakaði síðan marengstoppa, dýfði í súkkulaði og brytjaði yfir smá “bismark”

Brjóstsykur fyrir Thermomix6:

 • 140 g Fibersíróp, glært
 • 180 g Sæta, Sweet like sugar notaði ég
 • 30 g vatn
 • 1/2 tsk piparmyntudropar, fékk mína í Allt í köku
 • 1/2 tsk sítrónusafi
 • Skraut:
 • hvítur matarlitur
 • rauður matarlitur
 • silikonform

aðferð:

 • Fyrir þá sem eiga TM6 þá nota ég Peanut Brittle stillinguna sem hentar líka fyrir karamelluhnetugottið góða. En í stað þess að nota það sem kallað er eftir í uppskriftinni þá set ég allt hér að ofan nema matarlitinn í eldunarskálina og set í gang. Þetta er 22 mín prógram og fer vélin upp í 160° sem er fullkomið hitastig og er öruggt að ekkert slettist út fyrir. Farið mjög varlega með heitt sírópið því það er alveg brennandi heitt.
 • Þegar brjóstsykursblandan er klár þá bætti ég við 1 tsk sirka af hvítum matarlit og hrærði rólega saman við heitt sírópið. Svo er gott að fikta ekki mikið meira í blöndunni því þá missir hún gljáann.
 • Ég dreifði nokkrum dropum af rauðum matarlit í silikonform og hellti svo varlega brjóstykursblöndunni ofan í svo það blandast saman litirnir. Þetta verður svona óreglulegt og fínt bara en dugar mér til að fá sömu áhrif.
 • Þegar brjóstykur kólnar þá er hægt að brjóta hann niður og mylja í hvað sem hugurinn girnist.
það er fallegt að nota svona form og bera brjóstsykur fram t.d. með kakóbolla sem skeið Formin fékk ég hjá Bjarney, #Twbjarney á instagram

Marengstoppar um 20-30 stk :

 • 100 g glært Fiber síróp
 • 25 g eggjahvíta, eða um 1 hvíta
 • 1 msk Sukrin Melis
 • nokkrir dropar vanilla
 • nokkrir piparmyntudropar ef þið viljið extra mikið mintubragð

aðferð:

 • Setjið innihald í hrærivélaskál og hitið yfir vatnsbaði, pískið í blöndunni á meðan hún hitnar, þetta hjálpar til við að ná fallega glansandi marengs sem verður glerharður við bakstur.
 • Færið skálina næst yfir í hrærivélina og stífþeytið þar til toppar myndast.
 • Setjið þá marengs í sprautupoka og búið til litla toppa á smjörpappír eða silikonmottu.
 • Bakið í 1.30 mín til 2 klt við 100°hita með blæstri. Látið alveg kólna áður en teknir af plötunni.
 • Mér fannst mjög gott að súkkulaði húða með Sukrin mjólkursúkkulaði eða Cavalier og strá dálitlum piparmyntukurli yfir. Uppskrift hér að ofan.
 • Geymið toppana í loftþéttum umbúðum.