Blómkáls sprengisúpa

Þegar kemur að sprengideginum þá eru góð ráð dýr varðandi súpuna. Það eru ansi mörg kolvetni í blessuðu gulu baununum svo það þarf að finna staðgengil þar. Ég gerði blómkálssúpu fyrir einhverju sem minnti mig svo á baunasúpu að ég ákvað að hafa hana bara núna á sprengidaginn. Baka góðar bollur með og sigla í gegnum þessa hátíðisdaga með eitthvað gómsætt sem staðgengil. Þannig gengur þetta mataræði best, að útbúa sér eitthvað geggjað sem tekur athyglina frá matarminningunum en þær eiga það til að eyðileggja frábæran árangur með misskemmtilegum afleiðingum eins og bjúg og þrota, uppþembu og vanlíðan.

innihald:

 • 1 líter vatn
 • 2 grænmetisteningar
 • 1 stór blómkálshaus
 • 60 g parmesanostur
 • 150 g beikon
 • 1 dl rjómi
 • 30 g smjör
 • 1 tsk karrý
 • salt og pipar eftir smekk

aðferð:

 • Hitið beikon í ofni, á pönnu eða í airfryer þar til stökkt. Geymið.
 • Skerið blómkálið niður í bita.
 • Hitið vatn og súputeninga í potti að suðu eða í Thermomix eins og ég nýtti mér hér þá 2 mín / 100°/hraði 2.
 • Bætið blómkálinu saman við í litlum bitum. Ef þið notið Thermomix þá maukið þið blómkálið í 5 sek/hraði 6
 • Hitið nú súpuna í 25 mín í pottinum. Í Thermomix 25 mín /100°/ hraði 1
 • Bætið næst við smjörinu og rjóma ásamt 2/3 af parmesan og sjóðið áfram í nokkrar mín. Í Thermomix maukið súpuna hægt og rólega frá hraða 1-6 í ca 30 sek. Hægt er að nota töfrasprota til að mauka súpuna ef matvinnsluvél eða blandari er ekki við hendina.
 • Bætið 2/3 af beikoninu saman við í litlum bitum og hrærið á lágum hita. Kryddið með karrý og pipar, ekki nota mikið salt því súpan verður nógu sölt af ostinum og beikoninu.
 • Berið svo fram með beikonkurli og parmesan ásamt nýbökuðum bollum sem hún Kristín Vald bakaði á hefðbundinn hátt fyrir bolludaginn en ég flippaði yfir á lágkolvetna vegu. https://mariakrista.com/rosmarin-ostabollur/ Þessi súpa passar fullkomnlega vel á sprengidaginn því áferðin minnir á baunir og saltaða beikonbragðið gerir gæfumuninn.