Bollakökur með saltaðri karamellu

Þessar eru náttúrulega pínu út úr þessum heimi. Súkkulaðibollakökur með djúsí karamellusmjörkremi. Alveg stórgóðar og léttar í sér. Kremið er ótrúlega einfalt því það er í raun bara þeyttur rjómi. Þessi uppskrift passar fullkomnlega í 12 stórar bollakökur. Þessi karamellu uppskrift er líka dásamlega góð bara ein og sér, kæld og skorin í bita, jafnvel fryst og súkkulaðihúðuð.

Innihald:

 • 4 egg
 • 100 g sæta sykurlaus Good good, eða Sukrin Gold
 • 1 dl rjómi
 • 1 dl grísk jógúrt
 • 40 g smjör
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • 50 g kókoshveiti
 • 20 g kakó
 • 1/2 tsk salt
 • 30 ml heitt kaffi uppáhellt
 • 1 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Þeytið egg og sætu saman, því næst rjóma, grísk jógúrtina,smjör og vanilludropana.
 • Bætið að lokum þurrefnum saman við. Látið deigið standa í smá tíma.
 • Deilið nú í 12 múffuform. Ágætt að pensla aðeins formin að innan með kókosolíu því kókoshveitið á það til að festast í bréfinu.
 • Bakið í 20 mín á 170°hita.

Innihald krem:

 • 6 msk karamella söltuð, sjá uppskrift, volg, ekki ísköld en volg
 • 80 g sæta, t.d. Good good sæta möluð fínt
 • 125 g rjómaostur hreinn, fæst í litlum boxum frá MS
 • 250 ml rjómi, gott fyrir magann að nota laktósafrían
 • 1 tsk vanilla

Karamella fyrir kremið:

 • 2 dl rjómi
 • 50 g smjör
 • 100 g Fiber Gold sýróp eða Good good sýróp
 • 1/2 tsk gróft sjávarsalt

aðferð karamella:

 • Hitið smjör og sýróp og látið malla í 5 mín, bætið svo rjóma við og látið krauma í 20-30 mín á meðalhita. Ef þið viljið þynnri karamellusósu þá bætið þið meiri rjóma í.

Aðferð krem:

 • Þeytið rjómaostinn, bætið karamellu og sætu út í og blandið vel.
 • Hellið rjóma saman við og skafið vel innan úr hliðunum í skálinni.
 • Hrærið varlega fyrst og setjið svo allt á fullan kraft.
 • Sprautið fallegum toppum á kökurnar, hellið auka karamellusósu yfir og skreytið með söxuðum pekanhnetum