Bollur með kotasælu og sólblómamjöli

Það er endalaust hægt að finna upp uppskriftir af góðum bollum og brauðum. Vissulega bragðast þau ekki eins og þessi í bakaríinu en það er alveg hægt að gera mjög bragðgóðar og fínar bollur með öllum fínu hráefnunum sem eru í boði um þessar mundir. Sólblómamjölið frá Funksjonell kemur sterkt inn þar því það gefur svona aðeins dýpra bragð og ekki alveg sama möndlumjölsáferðin sem fæst með því að nota það með í deigið. Þessi uppskrift kom glettilega vel út og smakkast vel með osti og smjöri. Kotasælan gerir heilmikið og bollurnar léttar og fínar.

innihald:

 • 80 g möndlumjöl hefðbundið, ekki fituskert
 • 40 g sólblómamjöl, Funksjonell
 • 2 egg
 • 150 g kotasæla MS
 • 1 msk vínsteinslyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 1 msk ólífuolía, OLIFA er æði
 • 1 msk kúmen
 • 1-2 msk sesamfræ, má sleppa
 • 1/2 tsk xantan gum

aðferð:

 • Hrærið öllu saman í hrærivél eða notið sleif, í raun mjög meðfærilegt deig en fljótlegast að gera í vél. Ég nota matvinnsluvél því þá verður kotasælan slétt og felld og bollurnar fallegri.
 • Látið deigið standa í 15 mín og raðið svo bollum á smjörpappírsklædda plötu. Stráið smá cheddar osti eða öðrum rifnum osti yfir, það er súpergott.
 • Bakið í 15 mín ca á 200 °hita með blæstri.