Bóndabaka

Mmmm… ég skal viðurkenna að ég er dálítil bökukelling, elska svona grófa botna með smá tuggu í. Það vildi svo til að ég átti til afgang af steik og nokkra sveppi svo þetta varð útkoman að kvöldmatnum í gær “Bóndabaka” var hún skírð, bara alvöru kjöt og kraftaspínat, svona nettur ruddi sem bragð er af haha. 

innihald:

 • 50 gr möndlumjöl
 • 20 gr hörfræmjöl
 • 1 egg
 • 50 gr rifinn ostur, ég notaði hvítlauksost sem var æði
 • 1/2 tsk salt

aðferð:

 • Hrærið þessu saman í skál og setjið á bökunarpappír, setjið annan pappír yfir og fletjið út í sirka 9-12 tommu pizzu.
 • Bakið í ofni, 180° á blæstri í um 5 mín eða þar til botninn stífnar aðeins.

álegg:

 • 1 góð msk sveppasmurostur
 • roastbeef 4 sneiðar, eða afgangs steik ef hún er til
 • 2-3 sveppir niðurskornir
 • 1 tsk oregano eða pizzakrydd
 • 1 tsk furuhnetur
 • Lítil lúka af spínati eða ruccola
 • sletta ólífuolía

aðferð:

 • Sveppaostinum er smurt yfir botninn, roastbeef/steik og áleggi dreift yfir og öllu skellt í ofninn í 5-8 mín í viðbót í 200°hita.
 • Hér má bæta við smá rifnum osti en ekki nauðsyn.
 • Gott er svo að hella pínu ólífuolíu yfir og njóta svo í botn. Fyrir þá sem vilja þá má bæta við avocado, parmesan og fersku ruccola. Þessi er mjög matarmikil og saðsöm og hentar eflaust fyrir tvo.