Brauðbollur með Pofiber

Það er pínu kúnst að láta brauðbakstur sem samanstendur aðallega úr eggjum og osti bragðast eins og brauð. Sumir geta ekki möndlumjölsbragð, aðrir hata kókosbragðið og aðrir finna litlar agnir úr Huski í deiginu og pirra sig á því. Vandlifað ha !! En mjög eðlilegt því bragðlaukar okkar eru misjafnir og því gott að hafa nóg úrval þegar kemur að hinni fullkomnu brauðuppskrift fyrir þig. Hér nota ég Pofiber í uppskrift sem er afar einföld en Pofiber eru kartöflutrefjar. Í þessa uppskrift notaði ég 25 g af trefjum sem eru um 4.25 g kolv og deilast þau niður á 8 stórar bollur. Með eggjakolvetnum eru því bollurnar um tæpt 1 netto kolv per stk sem er nokkuð gott.

innihald:

  • 4 egg meðalstór
  • 180 g rifinn ostur
  • 25 g Pofiber, frá Semper fæst t.d. í Bónus
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2 msk Hampfræ, má sleppa en gefa gott bragð

aðferð:

  • Hitið ofn í 220° með blæstri
  • Rífið ost fínt niður, gott að nota matvinnsluvél í þetta og blanda þá öllu saman í henni.
  • Bætið við eggjum og Pofiber, lyftidufti og hampfræjum ef þið viljið
  • Mótið bollur með matskeið og dreifið á smjörpappírsklædda bökunarplötu. Dreifið smá hampfræjum yfir.
  • Bakið í 15 mín eða þar til bollurnar eru gylltar og fallegar.