Brauðstangir

Það er laugardagskvöld, steikin búin að setjast í mallanum og nánast komið að háttatíma. Bíómyndin hálfnuð og þá allt í einu bankar nartþörfin hjá frú Maríu Kristu. Hvað gera bændur, jú hendast inn í eldhús og snara fram brauðstöngum á mettíma. Örbylgjuofninn kemur sér vel í þessari uppskrift en eflaust er hægt að bræða ost í góðum potti á lágum hita ef fólk er algjörlega mótfallið örbylgjunotkun eða á ekki slíkan grip. Bakaraofninn er reyndar líka nauðsynlegur í þetta verkefni og eftir 15-20 mín mesta lagi voru 6 ómótstæðilega girnilegar brauðstangir með hvítlaukssmjöri og parmesan lentar á sófaborðinu.

Innihald:

 • 20 g kókoshveiti eða 60 g möndlumjöl, (hér mætti líka nota 10 g kókoshveiti og 10 g sólblómafræmjöl)
 • 140 g rifinn ostur
 • 1 egg
 • 1 msk rjómi
 • hvítlauksduft eftir smekk
 • 1-2 msk parmesanduft

Aðferð:

 • Setjið ostinn í örbylgjuvæna skál og hitið í 30 sek í einu eða þar til osturinn er seigfljótandi.
 • Bætið eggi og rjóma saman við og hrærið kröftuglega saman.
 • Setjið mjölið og krydd saman við og hrærið aftur mjög kröftuglega þar til allt blandast vel saman.
 • Mótið 6 lengjur úr deiginu, snúið upp á hverja og eina og leggið á smjörpappír. Dreifið dálitlu parmesandufti yfir að vild.
 • Bakið stangirnar við 200°hita í um það bil 10 mínútur eða þar til þær verða gylltar.
 • Það er mjög gott að bræða smjör með smá hvítlauk og steinselju og pensla stangirnar þegar þær koma út úr ofninum.