Brauðterta með aspas

Það er sunnudagur og við gömlu að skríða fram úr eftir geggjað afmæli í gær. Undirrituð er hress og kát enda allsgáð og því engin þynnka í mér en stundum langar manni pínu í þynnkumat þótt maður sé ekki þunnur fattið þið… bara búin að vaka lengi og dagurinn kallaði á eitthvað gott. Ég ákvað því að gera brauðtertu með aspas og skinku og henti svo í piparkökur og brownie í leiðinni en það var nú bara minnsta málið líka. Hér er uppskriftin af brauðtertunni sem var ótrúlega einföld og bragðgóð.

innihald botn:

 • 4 egg aðskilin
 • 125 g sveppasmurostur
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk fínmalað HUSK eða 1 msk gróft HUSK

aðferð:

 • Stífþeytið eggjahvítur og takið til hliðar
 • Þeytið rauðurnar saman við smurost, lyftiduft og HUSK þar til léttar og ljósar.
 • Þeytið nú varlega saman hvítunum og dreifið úr deiginu á ferkanataða mottu, eða bökunarplötu. Ég nota Tupperware mottuna mína því hún er fullkomin stærð og svo er svo gott að ná brauðinu af henni.
 • Bakið í ofni á 180° í u.þ.b. 10 mín eða þar til deigið er snertiþurrt. Takið úr ofni og kælið.

innihald fylling:

 • 3 harðsoðin egg
 • 1 krukka gulur aspas
 • 1 pk skinka, best frá Stjörnugrís
 • 1/2 rauð paprika
 • 140 g Hellmans mæjones
 • 80 g sýrður rjómi 36%
 • 1/2 tsk aromat
 • SKREYTING:
 • steinselja
 • 2 harðsoðin egg
 • 2 msk sýrður rjómi, 1 msk mæjó
 • 2 sneiðar skinka

aðferð:

 • Skerið skinkuna smátt ásamt paprikunni
 • Blandið aspas saman við og niðurbrytjuðum eggjum
 • Blandið sýrðum rjóma og mæjonesi saman og kryddið með aromati
 • Blandið nú öllu vel saman og dreifið fyllingunni á brauðið. Rúllið því varlega upp og færið á fat.
 • Blandið saman sýrðum rjóma og mæjónesi og hyljið tertuna að utan
 • Skerið paprikuna og skinku smátt og notið til að skreyta kökuna ásamt steinselju og harðsoðnum eggjum.

aðferð með Thermomix:

 • Setjið allt innihaldið í skálina og maukið 5 sek / hraði 4