Brokkolíbaka

Hver kannast ekki við að ískápurinn er orðinn fullur af afgangsgrænmeti og jafnvel osti sem þarf að nota. Mér finnst geggjað að búa mér til bökur úr afgöngum og hér er komin flott baka sem hentar á hvaða brunch borð sem er eða hreinlega hægt að nota sem kvöldverð. Það er extra gott að bera fram hvítlaukssósu með þessari böku og hún bragðast jafnvel betur daginn eftir.

innihald:

 • 70 g kókoshveiti eða sesammjöl
 • 120 g rifinn ostur, gott að nota sterkan ost á við gouda eða cheddar
 • 1 msk HUSK
 • 3 egg

aðferð:

 • Rífið ostinn niður, gott að nota matvinnsluvél.
 • Bætið mjölinu við og malið áfram.
 • Bætið nú við eggjum og hrærið öllu vel saman. Látið deigið standa í ca 10 mín.
 • Fletjið deigið út á milli tveggja laga af smjörpappír og leggið ofan í bökuform sem má setja í ofn.
 • Stingið í deigið með gaffli á nokkrum stöðum og bakið í 180°heitum ofni í um það bil 15 mín.
 • Takið bökuna út og kælið á meðan fyllingin er útbúin.

fylling:

 • smjörklípa
 • 3 cm af blaðlauk smátt skorinn
 • 1 hvítlauksrif
 • 200 g beikonkurl eða smátt skorið beikon
 • 300 g smátt skorið brokkolí, má nota frosið eða frosin brokkolígrjón, en betra að afþýða fyrst og láta renna af þeim vökvann.
 • 2 egg
 • 150 g rifinn ostur
 • svartur pipar, vel af honum
 • 180 ml rjómi

aðferð:

 • Steikið lauk og beikon upp úr smjörklípu.
 • Bætið við brokkolí og steikið allt vel. Piprið duglega.
 • Hellið blöndunni ofan í skelina.
 • Blandið rjóma, eggjum og rifnum osti saman og piprið.
 • Hellið blöndunni ofan á grænmetið í bökuskelinni og dreifið vel úr.
 • Bakið nú í 20-30 mín á 190° eða þar til bakan er gyllt og falleg.