Brómberjaskyrterta

Þessi færsla er unnin í samvinnu við MS.

Það er mjög fljótlegt að henda í skyrtertu ef veislu ber að garði. Skyrtertur eru afar ferskar og sniðugar sem eftirréttur og þessi er gerð úr nýja kolvetnaskerta skyrinu frá KEA. Skyrið hentar vel þeim sem aðhyllast lágkolvetnamataræðið og eru um 3.9 g kolvetni í 100 g af vanilluskyri og þegar gera á vel við sig þá er þetta skyr í góðu lagi. Það fást 3 bragðtegundir, vanillu, jarðaber og bananar og svo er kaffibragð væntanlegt en ég sé fyrir mér geggjaða mokkaskyrtertu þegar fer að hausta. En hér nota ég brómber enda fást íslensk brómber í verslunum núna og um að gera að nýta sér það sem er í boði hverju sinn og ferskast. Ég notaði tvær öskjur af brómerjum í þessa köku. Það er hægt að láta duga að skreyta kökuna með ferskum berjum en ég bætti um betur og bjó til hlauptopp sem er svo góður.

Botninn:

 • 80 g pekanhnetur
 • 80 g möndlumjöl
 • 40 g fínmöluð sæta, Good good eða Sukrin Gold
 • 50 g brætt smjör
 • 10 g olía, kókosolía eða MCT, gerir botninn ekki eins harðan
 • 1 tsk kanill
 • 1/3 tsk salt

aðferð:

 • Malið pekanhnetur smátt.
 • Setjið möndlumjölið og pekanhnetur á pönnu og ristið. Setjið svo í skál ásamt salti, kanil og sætu.
 • Bræðið smjörið og hellið saman við mjölið og hrærið vel ásamt olíu.
 • Setjið blönduna í fallegt mót og þjappið vel. Það er fallegt að láta botninn aðeins upp á kantana. Kælið

fyllingin:

 • 2 dósir Kolvetnaskert vanilluskyr KEA
 • 200 ml rjómi
 • 20 g fínmöluð sæta
 • 1 tsk vanilludropar
 • 6-8 brómber

aðferð:

 • Þeytið rjómann. Bætið skyri, sætu og vanillu saman við ásamt brómberjum skornum í helminga.
 • Þeytið allt vel saman þar til brómberin hafa blandast við skyrblönduna og litað hana fagurfjólubláa.
 • Hellið í formið og frystið í smá stund.

Toppur:

 • 100 ml soðið vatn
 • 2 msk sítrónusafi
 • 30 g fínmöluð sæta
 • 6 brómber
 • 3 matarlímsblöð
 • 8-10 brómber skorin til helminga

aðferð:

 • Setjið matarlímsblöðin í kalt vatn og látið bíða í 10 mín.
 • Setjið brómber og sítrónusafa í matvinnsluvél og maukið. Það er líka hægt að stappa þau saman með gaffli.
 • Sjóðið vatn og hellið saman við brómberjamaukið og bætið sætunni saman við. Kreistið næst mesta vatnið úr matarlíminu og setjið saman við heita berjablönduna. Hrærið og látið leysast alveg upp.
 • Skerið brómber til helminga.
 • Hellið kældri hlaupblöndunni varlega yfir skyrtertuna og raðið ferskum brómberjum ofan á með sárið niður. Kælið og njótið.