Bruður

Það er hægt að gera bæði mjúkar kringlur úr þessari uppskrift sjá hér en einnig er hægt að baka þær tvisvar og fá út þessar fínu bruður. Þeir sem nota collagen eru heppnir því það er notað collagen í þessa uppskrift. Ef þið hafið ekki prófað collagen þá mæli ég með að prófa, þið getið þá alltaf notað í bakstur ef þið fílið ekki að drekka það öðruvísi. Gott er að bera þessar fram með kotasælu og sultu en þetta er svona gamall vani hjá mér, bruður með kotasælu og bláberjasultu. Þessar komu fyllilega í staðinn.

innihald:

 • 100 g möndlumjöl
 • 15 g collagen, Feel Iceland
 • 10 g HUSK duft ( Powder )
 • 1 msk eplaedik
 • 3 egg
 • 1 kúfuð tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt, notaði Himalaya
 • 2 msk kúmen

aðferð:

 • Hrærið öllu vel saman í skál, fyrst þurrefnum og bætið svo eggjum og ediki saman við.
 • Látið deigið standa í 10-15 mín og setjið síðan 1 msk rúmlega af deigi reglulega á smjörpappír.
 • Það er líka hægt að nota silikon form til að móta fallegar bollur.
 • Bakið í 20 mín við 180° hita með blæstri eða þar til bollurnar losna af bökunarpappírnum og eru gylltar á lit.
 • Þegar bollurnar eru volgar þá má skera þær í sundur og raða þeim á bökunargrind og baka aftur í 45-60 mín á 120°-140° eða þar til þær eru stökkar og góðar.
 • Þessar eru æðislegar með kotasælu og sykurlausri sultu t.d.