Brúnað rauðkál

Mamma hans Barkar míns er sérlegur rauðkálskokkur þegar jólin ganga í garð og hefur fjölskyldan oft kallað þennan rétt “skreiðamaur í formi sælgætis” sem er afar ósmart en brúnað rauðkál minnir reyndar pínu á eitthvað í þá átt. EN vá hvað þetta er klikkað gott og ég gerði sykurlausa útgáfu sem kom dásamlega vel út. Kallinn gat ekki alveg samþykkt að þetta væri EINS og hjá MÖMMU en hann gerir það nú hvort sem er aldrei haha. Mér fannst þetta allavega dásamlegt og það er ótrúlega gott með öllu kjöti.

innihald:

  • 800 g rauðkál niðurskorið
  • 70 g Sukrin Gold
  • 70 g Fiber sýróp
  • 30 g smjör
  • 2 msk eplaedik

aðferð:

  • Hitið smjör og sætu á pönnu þar til brúnast og fer að krauma, hellið þá rauðkálinu á pönnuna og steikið í 15 – 20 mín.
  • Lækkið næst hitann og bætið ediki saman við.
  • Látið rauðkálið krauma á lægri hita þar til nánast allur vökvi er farinn úr pönnunni og eftir er karmelliserað rauðkál.
  • Þetta hentar dásamlega vel með reyktu kjöti sem og kalkún og nauti.