Brúnað smjör með kryddsalti

Ég kynntist þessu dásamlega smjöri hjá henni Auði sem rak Salt eldhús hér áður og rekur nú bakaríið 17 sortir. Hún er algjör matargúrmei og kenndi mér að búa til brúnað smjör sem klikkar aldrei með brauði. Hér lék ég mér að því að krydda bæði með bláberjasalti og lakkríssalti og hvorutveggja var æðislega gott. Það er hægt að gera þetta smjör í venjulegum skaftpotti en ég prófaði að nota Thermomix6 og það svínvirkaði með smá tilfæringum en sparaði mér þvott á potti og hrærivél.

Innihald:

  • 440 g smjör
  • bláberjasalt
  • lakkríssalt

aðferð:

  • Hitið 220 g af smjöri í þykkum skaftpotti og fylgist vel með þegar suðan kemur upp. Smjörið fer að freyða og það byrjar að koma hnetukeimur af smjörinu.
  • Hrærið varlega með skeið og fylgist með hvort það sé farið að brenna í botninn.
  • Þegar smjörið er orðið karmellubrúnt en þó ekki farið að verða of dökkt þá takið þið pottinn af hellunni og látið kólna alveg. Jafnvel yfir nótt.
  • Setjið 220 g af smjöri í hrærivél og hellið síðan “brennda” smjörinu í skálina. Þeytið allt saman þar til það hefur tvöfaldað stærð sína.
  • Setjið smjörið í fallegar krukkur eða krúsir og kryddið með salti að eigin vali. Það er líka hægt að sleppa saltinu og þá er það með mildum karmellukeim.