Brúsastaðir, upphafið og afhverju að breyta ?

Já það er stóra spurningin, hver var ástæðan fyrir því að breyta húsinu sem við höfum búið í síðustu 19 árin og hvernig vorum við svona heppin að eignast okkar yndislega heimili á þessum dýrðarstað? Ef við spólum aðeins til baka þá vorum við Börkur búin að eignast 2 börn þegar við fengum þetta ótrúlega tækifæri að eignast húsið sem mig hafði langað að kaupa frá því ég var barn.

Málið er að þegar ég var lítil þá var pabbi minn að vinna fyrir fyrrverandi eigendur í að klæða risið í húsinu en þakinu hafði verið lyft svo hægt væri að nýta hæðina betur. Ég fékk að skottast með pabba í vinnuna og mér fannst staðsetningin ævintýraleg sem hún er en húsið er staðsett í hrauninu í útjaðri Hafnarfjarðar við sjóinn, nánast ofan í fjöru. Bæjarmörkin að Garðabæ liggja rétt utan við lóðina sem er á friðlandi að hluta og er ekki búist við að hér verði byggt í framtíðinni. Rústir fjölda húsa í hrauninu má sjá enn þann dag í dag og mikil og merkileg saga fylgir nærumhverfinu.

Dásamlegt umhverfi

Eftir þetta bras með pabba varð ég alveg hugfangin og hugsaði reglulega til Brúsastaða, náttúrunnar, hundsins og yndislega fólksins og var í rauninni ákveðin í að ef mér gæfist tækifæri einhverntíma á lífsleiðinni að búa þarna í hrauninu þá væru það óskastaðsetningin mín fyrir framtíðina.

Eigendur Brúsastaða 2 voru hluti af ætt sem oft var kennd við staðinn og kallaðir „Brúsar“ nafnið Brúsastaðir eru að okkur skilst kennt við nafnið á sjófuglategundum sem halda til á svæðinu og kallast Himbrimi og Lómur og eru af Brúsaætt. Við kaupum húsið af erfingjum þeirra sem byggðu Brúsastaði á landi fjölskyldunnar og Hafnarfjarðar og var það byggt árið 1961.

Við erum óendanlega þakklát fyrir það tækifæri að fá að búa okkur og fjölskyldunni okkar heimili hér á þessum dásemdarstað og höfum alltaf haft að leiðarljósi að virða náttúruna, staðinn og andann í húsinu. Hér hefur greinilega ýmislegt verið brallað í gegnum tíðina og greinilegt að eigendur voru mikil náttúrubörn og garðáhugafólk. Sjáið gullregnið hér í lautinni fyrir aftan hús, það er stórfenglegt.

Gullregn í landi Brúsastaða

Þegar við Börkur fengum þetta tækifæri vorum við nýskriðin úr námi og rétt byrjuð að vinna. Fjármagn var af skornum skammti og lítið gert við nýja húsið nema dytta að því helsta. Við máluðum veggi og lagfærðum eldhús örlítið en það var ekki lagt í stórar breytingar. Börnunum fjölgaði um einn og húsið hélt vel utan um okkur. Hænur og kettir, hundur og kanínur hafa fengið búsetu hjá okkur og margt verið brallað síðustu 19 árin en svo kom loks að því. Eigum við að gera húsið aðeins upp Börkur eða hreinlega selja?

Aðdragandinn !

Upphaflega ætluðum við bara að klára efri hæðina sem fyrrverandi eigendur náðu aldrei að klára því miður og við Börkur þurftum að koma börnunum fyrir í herbergjum. Við klæddum því af 2 rými fyrir krakkana og næstu árin var efri hæðin nýtt í allskonar bras, hún var nýtt fyrir unglingasvæði, stelpuherbergi og einnig rekið ljósmyndastúdíó Brosbarna á tímabili. Það var meira að segja verið að unga út hænueggjum uppi á lofti, gert við fjallahjól, villikettir fóstraðir í búrum, smíðað, brasað og breytt og bætt eftir aðstæðum hverju sinni. Það var þó aldrei búið að fullklára neitt og stór hluti af hæðinni notaður sem geymsla.

Eldhúsið sem dugði okkur allan tímann þrátt fyrir lítið skápa og vinnupláss
Fallega fjölskyldan okkar, börnin og Alma barnabarnið.

Börnin stækkuðu, elsta dóttirinn flutti til Danmerkur, strákarnir eignuðust kærustur og aðstæður breyttust. Þá fór draumurinn um að klára húsið á flug og einfaldar þakviðgerðir sem við höfðum frestað urðu að stærri hugmyndum. Hvernig væri að stækka húsið ? Hækka þakið og gera svona mansard þak og nýta betur lofthæðina. Jú eitthvað veltum við því fyrir okkur og skoðuðum helling af húsum í bænum. Eftir hugmyndir fram og til baka þá kom ein klikkuð upp, hvernig væri hreinlega byggja nýja hæð ofan á fyrstu hæðina ?

Klikkað ? Jú frekar klikkuð pæling en þegar við fórum að kasta á milli hugmyndum og nefndum þetta við Jóhann Sigurðsson arkitekt og fyrrum skólafélaga þá var ekki aftur snúið. Hausinn á okkur var kominn á flug, fjármagn var ekkert endilega til staðar haha en aðeins rýmri tími sem við höfðum fyrir okkur sjálf og ég gat hagrætt vinnutíma mínum þannig að verkefnið gat orðið að veruleika. Ég var nefninlega að vinna á fullu í Systur og makar verslun okkar systra sem og að sinna villikattafélaginu í 5 ár sem tók ansi stóran toll og þegar því tímabili lauk þá opnuðust nýjar dyr og draumurinn varð raunverulegri.

Við fórum á fjöldann allan af fundum með arkitektinum okkar, funduðum með bæjaryfirvöldum til að sjá hvort framkvæmdin væri yfirhöfuð möguleg og eftir deiliskipulagsbreytingar, byggingastjórafundi, teikningavinnu og þrotlausa undirbúningsvinnu var búið að negla þetta, húsinu yrði breytt, það yrði byggð ný hæð ofan á fyrstu hæðina.

Við ákváðum að nýta grunninn og hæðina áfram sem einhverjum fannst vitleysa, afhverju ekki bara að rífa og byrja uppá nýtt en það var aldrei inni í myndinni. Við hvorki höfðum við efni á því að flytja út og leigja og að sama skapi hefði ekki fengist leyfi fyrir slíkum breytingum hjá bæjaryfirvöldum. Eins fannst okkur sjálfsagt að nýta þennan fína grunn sem var til staðar og óþarfi að fara í of mikið rask á lóðinni sem stendur eins og fyrr segjir á friðlandi.

Það voru allskonar pælingar í gangi í upphafi
Hugmyndin sem varð ofan á eftir margar mismunandi útfærslur frá arkitektinum okkar hjá Tendra

Við fórum fram og til baka í hugmyndavinnu með arkitektinum okkar og hans fólki á Tendra arkitektastofu og á endanum varð þessi teikning fyrir valinu. Þetta er frekar gróf teikning en húsið átti eftir að breytast örlítið í ferlinu. Það sem við höfðum aldrei hugsað var að snúa skipulaginu við og færa eldhús og stofu upp en sú hugmynd kom fljótlega frá arkitekt og einnig að færa stigann. Þetta kallaði á allskyns skipulagsbreytingar á neðri hæð einnig en þó þannig að við gátum búið áfram í húsinu sem var mikill kostur. Loftið eða milliloftið var steypt plata og því gátum við lokað stigaopinu þegar búið var að rífa og búið áfram niðri. Þar sem sumarið var ágætlega hlýtt þá gekk þetta upp með tilfæringum og slatta af skyndibita og sundferðum. Það áttu allskonar vandamál eftir að koma upp eins og gengur og gerist en með töluverðri jákvæðni og bjartsýni þá létum við hjónin okkur hafa það. Hitateppi, vatnsryksugur og blásarar áttu stóran þátt í að allt gengi upp. Ég ætla að enda þessa bloggfærslu hér á mynd af húsinu þegar við vorum að byrja að rífa og held svo áfram næstu daga að fara yfir ferlið.

Hér var búið að rífa út geymsluna, unglingasvítuna og allt á leið í endurvinnsluna. Hvað vorum við búin að gera ?