Chilisulta með ostinum

Í bókinni brauð og eftirréttir Kristu sem ég gaf út 2013 birtist uppskrift af chilisultu og mig langar að bæta henni hér inn því hún er mjög bragðgóð og hentar svo vel með ostum og kexi, (lágkolvetnakexi auðvitað) Sultan er æðisleg sem gjöf líka og inniheldur aðallega paprikur og chili. Endilega prufið því ostabakkar geta verið mjög ketóvænir ef vel er valið á þá. Valhnetur, makadamiur, brómber, jarðaber, hindber, sykurlaust súkkulaði, rabarbarachutney og ostakex. Parmaskinka, pepperonistafir og roastbeef. Ekkert mál.

Innihald sulta:

 • 3 rauðar paprikur

 • 5 chili rauð, fræhreinsið 2-3 en látið fræjin halda sér í hinum

 • 2 dl sæta, ég notaði Nicks sætuna 1:1 í þetta sinn því hún kristallast ekki

 • 1 1/2 dl eplaedik

 • 1 tsk Xanthan gum

 • 10 dropar stevía, bragðlaus

aðferð:

 • Blandið papriku og chili saman ( ég fræhreinsaði 2-3 chili áður) í blandara eða matvinnsluvél svo auðvelt sé að sjóða, ég notaði Thermomix auðvitað og skar niður frekar smátt.
 • Setjið í pott, sætuna, edik og grænmetið en geymið xanthan gum og stevíu þar til í lokin og látið sjóða í rúmar 20 -25 mín. Ég notaði Thermomix líka og sauð sultuna á 100°í um 20 mín án þess að nota lokið.
 • Bætið Xanthan gum í sultublönduna og sjóðið áfram í nokkrar mínútur ásamt stevíunni.
 • Maukið sultuna með töfrasprota ef hún er mjög kögglótt eða notið matvinnsluvél, ég stillti á hraða 6 í Thermomix í nokkrar sekúndur og sultan varð fallega blönduð og mjúk.
 • Hellið í sótthreinsaðar krukkur og lokið. Tilvalið með ostunum.