Creme brulee í Thermomix

Það er í raun alls ekki erfitt að gera þennan þekkta desert og þaðan af síður að gera hann sykurlausan. Hann í eðli sínu mjög ketóvænn ef við skiptum út sykri fyrir sætu enda meginuppistaðan rjómi og egg. Ég notaði laktósafrían rjóma í þessa uppskrift en fólk ræður því alveg, mér finnst laktósafríi bara fara betur í magann. Passið ykkur á að rjóminn sé ekki of heitur þegar hann blandast eggjunum og þeytið vel á milli. Sumir vilja koníak út í sitt creme brulee en aðrir vilja bara gott vanillubragð. Það er því bæði hægt að nota vanillustöng og skafa fræin úr eða nota vanillu extract (dropa). Mætti líka setja koníaksslettu með til að gera aðeins meira úmpf. Ég notaði svo Sukrin Gold sætu til að setja ofan á toppinn og hitaði með loga, en það má líka skella réttinum undir grill í 1-2 mín með sömu niðurstöðu og mikið einfaldara í rauninni.

innihald:

 • 5 eggjarauður við stofuhita
 • 500 ml rjómi, ég notaði laktósafrían
 • 1/4 tsk gróft salt
 • 1 tsk vanilluextract eða 1 vanillustöng klofin og skafið fræ úr.
 • 60 g sæta fínmöluð ( 5 msk ca)
 • 1 msk koníak, má sleppa
 • 60 g Sukrin gold til að setja á toppinn

aðferð í Thermomix:

 • Hitið ofn í 160° með blæstri
 • Setjið 60 g sætu í eldunarskál og malið 8 sek/hraði 8
 • Takið 50 g og setjið í aðra skál en skiljið um 10 g eftir
 • Bætið 500 ml af rjóma í skálina ásamt salti og vanillustöng ef hún er notuð og stillið á 7 mín / 98°/hraði 2 öfugur snúningur
 • Hellið heitu rjómablandinu í aukakönnu á meðan eggjarauður eru þeyttar.
 • Setjið rauður í skálina ásamt 50 g af sætunni ( sem var tekin til hliðar) og þeytið 3 mín/ hraði 4 og notið þeytispaðann.
 • Veiðið vanillustöngina upp úr rjómanum og hellið honum í mjórri bunu ofan í eggjarauðurnar og þeytið áfram á hraða 2 þar til allt hefur blandast vel saman. Hér má bæta við koníaksslettu og vanilludropum ef þið kjósið að nota það fremur en vanillustöng.
 • Finnið til 6 skálar sem þola hita og skiptið blöndunni jafnt á milli í skálarnar.
 • Setjið skálarnar í eldfast mót og hellið heitu vatni í fatið þar til vatn nær upp á hálfar skálar. Setjið fatið í ofninn og bakið í um það bil 35-40 mín, lengur ef þarf en búðingurinn á að vera orðinn hlaupkenndur þegar hann er klár.
 • Látið búðinginn kólna í klt áður en settur í ísskáp og kælið í lágmark 3 klst, best að kæla yfir nótt.
 • Stráið síðan 1-2 tsk af Sukrin gold yfir hvern búðing áður en borið er fram og brennið með loga ef þið eigið slíkt tæki. Annars má hita ofn á grillstillingu og háan hita og skella skálunum undir grill í 2 mín til að bræða sætuna.
 • Berið fram beint eða skreytið með berjum, mintu og þeyttum rjóma,