Djöflaterta Lindu Ben

Linda Ben er ein af þeim sem ég dáist af á hverjum degi. Hún er ekki bara búin að endurgera hvert húsnæðið á eftir öðru án þess að brjóta nögl, heldur er hún ótrúlega fær í eldhúsinu, með myndavélina og bara brjálæðislega smart stelpa sem ég elska að fylgjast með. Hún bakaði núna Djöflatertu á Instagram sem vakti áhuga minn en mér finnst oft erfitt að gera súkkulaðismjörkrem sem er ekki of væmið og smjörað !! Hún notaði rjómaost í þetta krem og það gerir það mjög loftmikið og létt í sér. Ég spurði hana hvort ég mætti snara uppskrift yfir á sykurlausan máta og það var nú sjálfsagt. Ég smellti í eina köku og krem og já þetta er klikkað gott. Það er hægt að gera 2 x 18-20 cm botna úr deiginu eða hella því hreinlega í litla skúffu og baka þannig köku. Kremið yrði líka geggjað á súkkulaðkökuna úr kúrbítnum trúi ég en þessi var líka geggjuð svo bara prófið. P.S. Það væri hægt að nota möndlumjöl í stað kókoshveitis en þar sem egg eru misstór þarf að bæta í möndlumjöli ef deigið er of þunnt. Gott er að láta deigið hvíla í formunum í 15-30 mín áður en það er bakað. Mjölið dregur rakann betur í sig og kakan verður þéttari.

Uppfært: Ég minnkaði sætuna í kreminu og bætti við Xantahan gum í kökuna.

Ingredients

 • 1 dós sýrður rjómi 36% eða 2 1/2 dl Ab mjólk

 • 1 dl olía ég notaði steikingarolíu frá Olifa, eða nota aðra bragðlausa olíu

 • 3 egg

 • 160 g sæta, Sweet like sugar, ég notaði meira en er búin að minnka sætuna

 • 50 g kakó

 • 60 g kókoshveiti, hægt er að nota 180-200 g af möndlumjöli líka

 • 1 1/2 tsk lyftiduft

 • 1/2 tsk matarsódi

 • 3/4 tsk salt

 • 1 dl sterkt kaffi við stofuhita

 • 1 tsk Xanthan Gum

Directions

 • Hitið ofn í 170°hita með blæstri
 • Þeytið saman sýrðan rjóma, olíu og egg.
 • Blandið þurrefnum saman í skál, gott að fínmala sætuna og þessvegna öll þurrefnin áður en þau eru sett saman við.
 • Blandið þeim við eggjablönduna og að lokum fer kaffið saman við.
 • Bakið í 2 formum um 18-20 cm í þvermál eða notið eina litla skúffu til að gera einfalda köku. Látið deigið standa í 10-15 mín áður en formin fara inn í ofninn.
 • Bakið í 25-30 mín eða þar til pinni kemur hreinn upp úr botnunum.

Ingredients

 • 300 g smjör, mjúkt

 • 150 g rjómaostur, hreinn Philadelphia

 • 100 g fínmöluð sæta, Sweet like sugar sett í blandara

 • 50 g kakó

 • 1 tsk vanilludropar

 • 4-5 msk volgt kaffi

Directions

 • Þeytið smjörið vel saman með K spaða í hrærivél þar til það er létt og ljóst.
 • Bætið þá við rjómaostinum og þeytið áfram, því næst sætu, kakói og vanilludropum.
 • Þeytið vel og lengi og bætið svo við 3-4 msk af volgu kaffi til að þynna kremið.
 • Setjið kremið á botnana eða skúffukökuna og njótið með bestu lyst.