Draumadísa og peran

Móðir mágkonu minnar er þekkt fyrir að gera heimsins bestu perutertu og maðurinn minn talar alltaf um hana þegar komið er úr veislum frá fjölskyldunni. Það var því tilvalið að snúa þessari tertu yfir í “betra” liðið og gera hana sykurlausa svo ég gæti fengið mér og boðið upp á hana í mínum veislum. Kakan kom stórvel út með blöndu úr nokkrum uppskriftum og fékk ég hlutföllin í kreminu að láni frá Fríðu Dóru vinkonu. Ég notaði eina ferska peru í alla tertuna í stað þess að nota niðursoðnar perur í sykurlegi og það gerði alveg helling, 2 perur mætti líka nota ef þær eru litlar en fyrir mig persónulega dugðu þær til enda ekki kolvetnalausar og nota ég perur í algjöru lágmarki.

Botninn innihald:

 • 2 egg aðskilin
 • 90 g sæta, (30g og 60g) ég notaði Nick´s en má nota aðra sætu
 • 3 msk rjómi og 1 msk vatn
 • 20 g ósaltað smjör
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 35 g kókoshveiti
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1/2 tsk gróft salt
 • 1/4 tsk cream of tartar

aðferð:

 • Aðskiljið eggin.
 • Setjið smjör í pott og hitið ásamt rjóma, vatni og 30 g af sætunni. Látið sætuna leysast alveg upp. Leyfið blöndunni að kólna aðeins.
 • Bætið eggjarauðunum saman við einu í einu og hrærið létt á milli með sleif. Setjið að lokum kókoshveitið, salt og vínsteinslyftiduft út í og hrærið.
 • Ef þið notað Thermomix þá hitið þið smjörið, rjóma, vatn og sætu í 5 mín / 100°/hraði 1, bætið svo við eggjum, blandið 5 sek á hraða 1, þurrefnin fara út í og blandið 5 sek hraði 2.
 • Stífþeytið eggjahvíturnar, cream of tartar, vanillu og 60 g af sætu þar til toppar myndast. Blandið varlega eggjarauðublöndunni saman við hvíturnar og hrærið létt saman. Eggjahvítur má líka þeyta í Thermomix en þrífið þá skálina vel á milli.
 • Setjið deigið í form, hringlaga eða ferkantað og bakið í 180° heitum ofni með blæstri í ca. 15 – 20 mín, neðarlega í ofni. Gott er að hafa smjörpappír í botninn því kókoshveiti á það til að festast í formum.
 • Passið líka að kakan brenni samt ekki því kókoshveiti þarf lítið til að brenna. Fylgist því vel með bakstrinum.

marengs:

 • 6 eggjahvítur
 • 3 dl ( 120 g ) fínmöluð sæta t.d Sukrin Melis eða Sweet like sugar , ef notuð er Monkfruit sæta eða Sukrin + sem er helmingi sætari þá notið þið 1 1/2 dl eða 60 g
 • 1/2 tsk eplaedik
 • 8 dropar vanillustevía

Aðferð:

 • Stífþeytið hvíturnar og passið að skálin sé hrein, gott að þrífa skálina að innan með ediki.
 • Bætið sætunni saman við í smáum skömmtum.
 • Bætið ediki við í lokin og þeytið vel
 • Dreifið deiginu á smjörpappír eða í pappírsklætt mót og bakið í 2-3 klt á 100° C hita með blæstri.
 • Látið botninn alveg kólna áður en tekið er á honum.

Rjómi á botn:

 • 250 ml rjómi þeyttur

Krem:

 • 250 ml rjómi þeyttur
 • 1-2 ferskar perur, má sleppa
 • 70 g cavalier sykurlaust súkkulaði
 • 1/2 tsk kakó
 • 1 tsk ólífuolía ( steikingar frá OLIFA ) eða önnur mild olía
 • 6 eggjarauður
 • 2 tsk fínmöluð sæta

aðferð:

 • Þeytið rjóma ( 500 ml samanlagt) og setjið til hliðar, helmingur fer á kökuna og hinn parturinn í kremið
 • Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði ásamt kakói og olíu. Takið til hliðar
 • Þeytið næst eggjrauður ásamt sætu þar til léttar og ljósar. Hellið þá súkkulaðiblöndunni út í rauðurnar og þeytið áfram.
 • Blandið nú rjómanum varlega saman við.
 • Setjið rjóma á svampbotninn, þar næst dreifið þið niðurskorinni peru yfir rjómalagið.
 • Setjið dálítið af súkkulaðikremi yfir perurnar og leggið marengsinn ofan á.
 • Restin af súkkulaðikreminu fer þar ofan á marengsinn og fallegt er að rífa niður smá súkkulaðispæni yfir.

aðferð krems í Thermomix:

 • Setjið súkkulaðið í Thermoskálina ásamt kakó og ólífuolíu

 • Stillið tímann á 2 mín / 80°/hraði 1.5
 • Hellið súkkulaði í skál og þrífið eldunarskálina
 • Setjð eggjarauður og sætu í skálina.
 • Þeytið 4 mín/hraði 4 með fiðrildaspaðanum þar til létt og ljóst. Hellið þá súkkulaðinu ofan í gatið á meðan hún þeytir og um 30 sek eru eftir.
 • Blandið þessu saman við 200 ml af þeyttum rjóma.