Drottningartertan

Ég fékk áskorun frá vinkonu minni henni Dagnýju súrkálsdrottningu í dag, já í dag og auðvitað kláraði ég málið samdægurs. En áskorunin snérist um að endurgera svokallaða drottningartertu sem fannst í dönsku blaði fyrir langa löngu og rataði á bloggið hans Alberts, alberteldar.com. Dagný bað mig vinsamlegast að gera hana sykurlausa og ketóvæna og ég græjaði það auðvitað með det samme. Ég notaði gamlar uppskriftir hjá mér með smá tilfærslum og sauð saman mjög bragðgóða og sannkallaða konfekttertu sem mun eflaust slá í gegn um páskana.

innihald Botn:

 • 4 egg

 • 100 g sæta ég nota Sweet like sugar

 • 1 dl rjómi

 • 1/2 dl sýrður rjómi

 • 30 g smjör brætt

 • 50 g kókoshveiti

 • 150 g heslihnetur eða möndluflögur ef þið viljið frekar

 • 2 tsk lyftiduft

aðferð:

 • Þeytið egg og sætu vel saman þar til létt og ljóst.
 • Blandið rjóma, sýrðum, bræddu smjöri saman við og hrærið áfram
 • Setjið næst kókoshveiti og lyftiduftið og að lokum fara grófhakkaðar hnetur/möndlur út í og hrærið.
 • Setjið deigið í tvö silikonform og bakið í 20-30 mín á 160 ° með blæstri. Það sakar ekki að hafa bökunarpappír í botninum ( klippið til hring sem passar í botninn) Passið að botnar dökkni ekki um of, ef það virðist gerast þá er gott að setja álpappír yfir.
 • Losið varlega kantana og flippið botnunum yfir á diska þegar þeir hafa kólnað.

Nú er komið að því að baka marengsbotninn sem fer á milli krems og botna. Það er bæði hægt að gera einfaldan marengs úr sætu en það má líka nota uppskriftina hér með sírópi: https://mariakrista.com/marengskrans/

Marengsbotn:

 • 3 eggjahvítur eða um 90 g

 • 110 g fínmöluð sæta ég mala Sweet like sugar

 • nokkur saltkorn

 • 1/4 tsk vínsteinslyftiduft

aðferð:

 • Þeytið hvítur í edikhreinni skál þar til þær freyða vel, bætið þá við vínsteinslyftidufti og salti.
 • Bætið sætunni við í litlum skömmtum og þeytið allan tímann þar til hann er stífur og glansandi.
 • Sprautið marengsnum í hring sem er jafn stór og kökubotnarnir og bakið í 1-2 klt á 100° hita með blæstri. Takið botninn út og látið kólna alveg áður en þið takið af pappír eða silikonmottu.

Krem:

 • 6 dl rjómi, ég notaði laktósafrían

 • 6 tsk fínmöluð sæta

 • 3 tsk skyndikaffiduft

aðferð:

 • Þeytið rjómann létt. Malið skyndikaffiduftið með sætunni og bætið út í rjómann. Fullþeytið svo rjómann þar til nokkuð stífur.
 • Nú þarf að setja saman kökuna. Hnetubotn neðst, síðan helmingur af rjómakreminu, þá marengsbotninn, svo hinn helmingur af rjómanum. Að lokum fer seinni hnetubotninn ofan á.
 • Að lokum fer súkkulaðibráð yfir efsta hlutann.

Súkkulaðibráð:

 • 100 g sykurlaust súkkulaði að eigin vali

 • 1 tsk fínmöluð sæta

 • 2 tsk kókosolía

 • rjómasletta til að þynna með

 • 2 msk koníak, mér fannst þetta gera heilmikið

 • 1/2 tsk Kötlu appelsínudropar, má sleppa

aðferð:

 • Hitið súkkulaði og kókosolíu yfir vatnsbaði.
 • Bætið fínmalaðri sætu saman við, koníaki og bragðefni. Líklega þykknar súkkulaðið við þetta og þá þynnti ég með rjóma þar til bráðin varð fljótandi.
 • Hellið yfir efstu hæðina á kökunni og Voila, tilbúin konfektbomba.
 • Ég mæli með að láta kökuna standa í kæli helst í sólarhring áður en hún er borðuð. Kökur taka í sig bragð og vökva með tímanum og þessi verður bara meira djúsí ef eitthvað er í kæli.