Eggaldin lasagna

Lasagna er dásamlega góður “comfort” matur, ég veit ekki hvaða orð lýsir því best á íslensku en þið skiljið, það er kalt úti, kósý kvöld, lopasokkar, kertaljós, hvítlaukslykt í loftinu og rjúkandi heitt lasagna. Það gerist ekki betra. Þessi útfærsla af lasagna með eggaldin líkist meira moussaka sem er grískur réttur, en þar sem ég nota ekki kartöflumús eins og er notuð í moussaka þá er þetta hálfgerð blanda af lasagna og moussaka. Segjum það bara. Þetta er allavega mjög bragðgóður réttur með skemmtilegu twisti sem gerir alveg útslagið. Rjómaosturinn og kotasælan er krydduð með kanil og það er geggjað kombó sem kom skemmtilega á óvart.

Eggaldin lasagna

 • 2 msk steikingarolía
 • 1 kg hakk
 • 1 tsk ítalskt krydd
 • 1 tsk oregano
 • 2 krukkur pastasósa, t.d. Slendier eggplant sósa
 • 2 stór eggaldin eða 3 lítil
 • salt og pipar
 • 1 tsk chilimauk
 • 2 egg
 • 150 g rifinn ostur
 • 1 stór dós kotasæla
 • 300 g rjómaostur
 • 1 tsk kanill

aðferð:

 • Skerið eggaldin niður í þunnar sneiðar, saltið vel og látið standa í 30 mín. Þerrið vökvann sem kemur upp úr sneiðunum
  og bakið í 200° í 30 mín, 15 mín á hvorri hlið. Það er gott að dreifa olífuolíu yfir sneiðarnar þegar þeim er snúið við fyrir seinni 15 mínúturnar.
 • Steikið hakkið upp úr olíunni, kryddið með oregano og pastakryddi og bætið svo sósunni saman við. Blandið saman rjómaosti, kotasælu, eggjum og kanil.
 • Nú er komið að því að raða lasagnanu saman. Setjið kjötsósu í botninn, raðið eggaldinsneiðum yfir og þvínæst ostablöndunni. Endurtakið þar til öll kjötsósan er búin. Endið á að dreifa mosarellaosti yfir allt og bakið í 180° hita í 20 mín.