Fiskur í raspi.

Já haldið ykkur nú, fisk uppskrift. Ég er ekki mikið að borða fisk þar sem ég virðist ekki brjóta niður ensím í fisknum og á það til að anga pínu daginn eftir af fisk !!! Það er víst til þessi sjúkdómur og kallast Fish odour syndrome og auðvitað er ég með hann, eða snert af honum. Ég fékk hinsvegar rosalegt æði í fisk um daginn og ákvað að láta reyna á að elda hann eitt skipti og viti menn bæði var fiskurinn góður og ég fann ekki mikla lykt daginn eftir haha. Ég mæli með þessum raspi hann var æði og gott að nota kryddið líka.

Innihald:

 • fiskflök, ýsa, þorskur alveg eftir hentugleika

 • 1 lítill gulur laukur

 • 1 dl parmesanostur

 • 1/2 dl möndlumjöl

 • 1/2 dl kókosmjöl

 • 3 msk mæjónes

 • 1 egg

 • 1 nsk karrýduft

 • smjör

 • salt og pipar

aðferð:

 • Skerið niður fiskflökin í hæfilega bita. Blandið saman eggi, mæjónesi og karrý og látið fiskinn liggja í leginum á meðan raspurinn er gerður.
 • Blandið saman, möndlumjöli, parmesan og kókos í djúpan disk.
 • Steikið lauk í sneiðum í smjöri og takið til hliðar.
 • Veltið næst fisknum upp úr raspinum og steikið síðan í smjöri á heitri pönnu. Kryddið með salti og pipar.
 • Þessi réttur kom æðislega vel út og bar ég fram hvíta sósu “Sósuna hans Sigga Hlö” uppskrift hér. Ég hafði líka blómkálið góða sem meðlæti og nokkrar graskersfranskar.