Flatkökur með salati

Amma Bagga heitin var fræg fyrir litlu krúttlegu flatbrauðin sem hún steikti í hvert sinn sem boðið var upp á hangikjöt og uppstúf en þessi brauð eru ótrúlega góð sem meðlæti og hreinlega ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá fjölskyldunni. Eftir að amma lést þá hef ég gert brauðin í þrjú skipti og hafa þau heppnast mjög vel. Ég baka þau fyrir hina fjölskyldumeðlimina sem borða hveiti en ég útbjó mér svo nýja útfærslu sem ég er svo glöð með að ég finn varla muninn. Upprunalega uppskriftin er 4 bollar hveiti, 4 tsk lyftiduft, salt og smá sykur og svo er mjólk hellt í hveitið og hnoðað í vél þar til orðið að góðu degi, ekki mjög nákvæm uppskrift frá ömmu en klikkar aldrei. Hér að neðan er svo mín uppskrift en þessi brauð á að steikja upp úr smjöri og olíu á þykkbotna pönnu sem hitnar vel því þá kemur þessi skemmtilega brenndi flatkökukeimur á þær. Ég gerði svo salat með þeim sem er úr hnúðkáli og grænum ertum, mæjó og kryddi og það minnir svo sannarlega á hangikjötssalat svei mér þá, eða kartöflusalat þessvegna. Mæli með að prófa og henta þessar litlu sætu snittur eflaust vel undir fleira álegg, lax, rækjur og fleira smart á áramótaborðið.

innihald flatbrauð:

 • 50 g fínt FITUSKERT möndlumjöl Funksjonell (grænn poki)
 • 50 g ljóst möndlumjöl H- Berg
 • 1 tsk Husk duft, NOW
 • 1/2 tsk Xanthan gum
 • saltklípa, gróft salt
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 msk sæta að eigin vali
 • 1/2 dl vatn
 • 1/2 dl rjómi

aðferð:

 • Setjið allt í hrærivél með hnoðspaða og hrærið í góða stund þar til deigið er slétt og fellt.
 • Setjið deigið á smjörpappír og leggið aðra örk yfir, það er auðvelt að fletja degið út en mikilvægt er að nota rétt möndlumjöl í verkið.
 • Fletjið deigið nokkuð þunnt og skerið út hringlaga kökur, ég notaði glas.
 • Hitið pönnu á nokkuð háa stillingu og setjið smjörklípu og olíu á pönnuna.
 • Steikið nú kökurnar þar til gylltar og þær mega brenna örlítið.

Innihald salat:

 • 1 hnúðkálshaus
 • 2 dl grænar ertur fást t.d. frosnar frá Coop í Nettó
 • 2 msk mæjónes
 • 2 msk sýrður rjómi 36% bestur
 • graslaukur 2-3 msk
 • hálfur lítill rauðlaukur, eða um 2 msk smátt skorinn
 • það má nota soðin egg en smekksatriði
 • salt og pipar
 • 1 msk fibersíróp
 • 1 tsk steinselja
 • 1 tsk sterkt sinnep

aðferð:

 • Skerið hnúðkálið smátt og setjið í örbylgjuofn í 3-4 mínútur. Það má líka létt sjóða það og kæla síðan.
 • Hitið frosnar baunir, má gera í örbylgju í 2-3 mín eða hita í vatni í potti. Sigtið og kælið með hnúðkálinu.
 • Blandið dressinguna saman með kryddum og lauk og blandið síðan öllu vel saman.
 • Salatið geymist vel og best eftir 1-2 tíma.
 • Borið fram á flatbrauði með smjöri og hangikjöti.