Florentine egg með Tindaosti

Þessi færsla er unnin í samvinnu við MS.

Það er fátt betra en vel elduð egg og ekki verra að bera þau fram með hollu grænmeti eins og spínati. Eggs Florentine er réttur sem kemur upprunalega frá Frakklandi en frakkar nota Florentine orðið um alla þá rétti sem innihalda spínat. Munurinn á Eggs Benedict og Eggs Florentine er s.s. aðallega skinkan í Eggs Benedict og Hollandaise sósan en í Egg Florentine er hefðin að nota ostasósu eða Mornay sósu. Ég ákvað að nota Óðalsostinn Tind frá MS í þennan rétt því hann bráðnar vel. Ég notaði ekki hveiti né mjólk í sósuna því þá væri hún víst ekki lágkolvetna. Ég notaði hinsvegar nóg af osti ásamt slettu af rjóma. Hvað getur verið betra. Ég prófaði sömu aðferð við Cheddar ostinn en hann er líka snilld til að bræða og útbúa stökkt kex eða taco skeljar, en það er nú efni í aðra færslu. Ostana má að sjálfsögðu líka skera niður í bita og njóta með valhnetum og sykurlausri sýrópsslettu. En rétturinn samanstendur því af steiktu spínati með lauk og hvítlauk en ég setti hann í litlar eldfastar skálar eda potta sem ég fékk í Nettó og lagði soðnu eggin ofan á, dreifði smá rifnum osti yfir og setti undir grillið. Það er líka gott að bera spínatið fram á ristuðu brauði, eggið ofan á og síðan ostasósuna. Ef fólk vill má endilega setja skinku ofan á.

Innihald:

 • 4 egg, miðað við 2 manneskjur
 • 2 tsk edik
 • salt
 • Sósa:
 • 150 g rifinn Tindur/Óðalsostur eða Cheddar/Óðalsostur
 • 1/2 dl rjómi
 • salt / pipar
 • 1/3 tsk laukduft
 • graslaukur til að skreyta með í lokin
 • Spínat:
 • 1 spínatpoki stór
 • 1 gulur laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 msk olía
 • salt og pipar

Brauðið:

 • 15 g sólblómamjöl frá Funksjonell
 • 1 egg
 • 1 tsk Husk
 • 1 msk kókosolía eða MCT
 • 1/4 tsk laukduft
 • nokkur saltkorn
 • vatn eftir þörfum

aðferð:

 • Best er að byrja á að steikja spínatið.
 • Steikið upp úr olíunni gulan lauk og bætið svo hvítlauknum saman við. Setjið einn poka af spínati pönnuna og látið sjóða niður og steikjast í lauknum.
 • Ef við þið viljið brauð undir eggin þá er fljótlegt að skella deiginu í örbylgjuofninn á meðan þið sjóðið eggin. Hrærið innihaldinu saman í brauðið, uppskrift hér að ofan og setjið í örbylgjuvænt form. Bakið í 90 sek. Gott að láta kólna og skera síðan í tvo helminga og rista.
 • Hitið nú vatn í potti fyrir eggin, setjið salt út í ásamt ediki og látið byrja að krauma. Brjótið egg í litlar skálar og hellið varlega út í pottinn, ágætt að nota frekar grunnan pott með ca 5 cm vatnshæð.
 • Látið eggin sjóða í ca 4 mín, veiðið þá upp á látið á eldhúsbréf.
 • Ostasósan er afar einföld, setjið rjóma í pott, rifinn ost saman við og krydd og hrærið þar til þykk og góð sósa er tilbúin í eggjafjörið.
 • Nú má annaðhvort bera spínatið beint fram á brauði eða setja í form og eggin þar ofan á, rifinn ost og skella undir grill í ofni í nokkrar mín.
 • Hellið sósunni svo yfir þegar borið er fram og skreytið með graslauk.
 • Sama saga ef notað er brauð, þá er spínati komið fyrir á sneiðinni, egginu þar ofan á og sósa yfir allt. Hverjum býður þú í brunch annars?