Fyllt grasker með beikoni og ostum

Það er svo gott að hafa sætkartöflumús með kalkún á jólunum og ég hef oftar en ekki gert slíka útgáfu. Ég færði mig hinsvegar yfir í graskerið eða Butternutsquass þegar ég fór að fylgja lágkolvetna mataræðinu og nú nota ég það eingöngu svona til hátíðabrigða. Ég hef steikt það sem franskar, maukað í súpur, búið til mús og núna prófaði ég að gera fyllt grasker með beikoni og ostum eins og ég fékk að smakka hjá henni Fríðu Dóru vinkonu minni. Ég sullaði nú saman einhverjum hlutföllum og það voru allir vitlausir í þetta hér. Njótið.

innihald:

 • 1 Butternut squass grasker, dugar f. 4
 • 100 g beikonsmurostur
 • 1 hvítlauksgeiri
 • 50 g piparostur
 • 100 g beikon
 • 3-4 msk rifinn mosarellaostur
 • pipar
 • 1/2 tsk kanill , má sleppa en gerir mjög jóló

aðferð:

 • Skerið graskerið í 4 parta.
 • Skafið fræin innan úr og leggið helmingana á bökunarplötu. Hitið í 1 klst á 170 °C með blæstri.
 • Steikið beikonið í litlum bitum þar til stökkt. Takið til hliðar.
 • Skafið næst kjötið innan úr graskerinu en passið að skemma ekki lögunina á þeim og skiljið eftir smá grasker í hliðunum.
 • Blandið innvolsinu saman við piparost og smurost ásamt hvítlauknum.
 • Gott að gera þetta í matvinnsluvél það flýtir fyrir. Kryddið með smá pipar og blandið síðan beikoninu saman við blönduna. Hér má bæta við kanil ef þið viljið extra jólalega stemmingu.
 • Mokið næst fyllingunni aftur í graskershelmingana, stráið rifnum osti yfir og bakið í ofni á 200° C þar til osturinn er gylltur.
 • Ég setti graskerspartana í falleg form sem fást í Nettó og bara hvert og eitt fram þannig. Þetta eru ofnþolnir litlir pottar með loki og hægt að nota þá í hverskyns meðlæti, baka í þeim og t.d. fallegir undir lauksúpur.