Grísakótilettur og blómkál í brúnuðu smjöri

Nú vorum við fjölskyldan að koma heim frá Kaupmannahöfn sem er aldeilis mekka skandinavískrar matarmenningar og hef ég undanfarið reynt að tileinka mér að panta mat dananna frekar en að eltast við indverskan og ítalskan mat. Ég elska hænsnasalat og smörrebröd og brokkolísalatið klikkar aldrei. Síðasti hádegisverðurinn í þessari ferð var snæddur á Granola sem er einhversskonar samsuða af frönskum og dönskum hefðum. Ég pantaði t.d. geitaostasalat og svo Steak tartar og Mekkín fékk sér hønsesalatið góða sem var borið fram á rúgbrauði. Svo voru í boði Croque Monsieur samlokur og allt borið fram með fersku salati. Ég mun klárlega reyna við alla þessa rétti á næstunni en það sem stóð upp úr í þessari ferð var alveg klikkaður kartöfluréttur, já ég smakkaði hann en við fengum okkur þessa snilld á veitingahúsinu Boathouse sem er niðri við Nýhöfn. Hann er alveg hinum megin og þarf að rölta yfir brúnna til að komast þangað og umhverfið er geggjað. Alveg klikkað töff staður með svona Californian twist og hægt að panta asískt og steikur í bland ásamt risotto og hamborgurum. Ég ákvað strax að ég myndi gera lágkolvetna útgáfu af þessum kartöflurétt en nota blómkál í staðinn. Brúnað smjör var aðalsöguhetjan í þessum rétt og o boy hvað það munar miklu að nota það. Grísakótilettur voru svona uppistaðan en einnig er hægt að bera blómkálið fram með hverju sem er.

innihald:

 • 1 blómkálshöfuð
 • 3 msk sítrónusafi, bestur nýkreistur
 • 1/2 dl ristaðar möndlur, hægt að kaupa tilbúið t.d. Kims með havsalti, fæst í Nettó
 • 1 msk graslaukur
 • 3 cm blaðlaukur
 • 1/3 rauðlaukur
 • 100 g smjör

aðferð:

 • Brjótið blómkál gróft niður í stöngla og gufusjóðið.
 • Takið blómkálið til hliðar.
 • Saxið laukana og möndlur smátt og setjið í skál.
 • Kreistið sítrónusafann og bætið saman við laukinn og að lokum fer blómkálið saman við.
 • Hægt er að stappa blómkálið gróflega með gaffli eða setja allt í matvinnsluvél í örstutta stund.
 • Setjið smjörið í þykkbotna skaftpott og látið bráðna á nokkuð háum hita. Fylgist vel með þegar smjörið fer að freyða.
 • Hrærið varlega í froðunni svo þið sjáið til botns. Þegar smjörið fer að dökkna og anga af hnetukeim þá slökkvið þið undir pottinum.
 • Hellið svo brúnuðu smjörinu yfir blómkálið og hrærið vel í.
 • Kryddið réttinn með salti og pipar og berið fram með hverju sem er.
Fjótlegt að mylja þessar yfir blómkálið, fæst í NETTÓ

Grísakótilettur í raspi:

 • 3-4 grísakótilettur, Stjörnugrís er alveg málið, góðar í marineringu líka en þó ekki nauðsynlegt
 • 60 g paremesanostur
 • 2 msk möndlumjöl

 • 2 msk mæjónes

 • Best á allt krydd eða Svínakjötskrydd

aðferð:

 • Setjið kótilettur í eldfast form og kryddið ef þær eru ekki í marineringu fyrir.
 • Blandið saman paremsan, möndlumjöli og mæónesi og dreifið yfir hverja sneið.
 • Setjið í 220° heitan ofn og steikið þar til raspið er gyllt og kótiletturnar eldaðar, yfirleitt um 15-20 mín. Ekki ofelda samt. Það er sniðugt að ausa vökvanum yfir kótiletturnar einu sinni á eldunartímanum.
 • Berið fram með blómkálinu og brúnuðu smjöri.
 • Gott að kreista smá sítrónusafa yfir í lokin og þessa uppskrift má nota við folaldasnitchel, fisk og kjúkling.