Grjónagrautur eða svona því sem næst …

Þessi færsla er unnin í samstarfi við MS en kotasæluna og rjómann fékk ég frá þeim. Æðisleg hráefni og koma sér vel fyrir okkur ketófólkið.

Hver hefði trúað því að kotasæla og egg gæti komið í staðinn fyrir grjónagraut ? Allt er nú hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég sá uppskrift með ricotta osti einhversstaðar þar sem osturinn var uppistaðan í hálfgerðum hafragraut og þar sem ég er að prófa mig áfram með kotasæluna frá MS datt mér í hug að gera grjónagraut því áferðin á kotasælu minnir ansi mikið á soðin grjón. Ég notaði líka hörfræmjöl sem ég hef mikla trú á og það gefur heilmikið bragð, er troðfullt af trefjum og góðum fitusýrum. Ég mæli með að þið prófið og látið ykkur dreyma um næstu jól. Þetta var allavega mjög saðsamur morgunverður og ekkert svo ægilega hár í kolvetnum, gæti trúað um 4 netcarb þessi skammtur um það bil.

innihald:

  • 80 g kotasæla, MS
  • 20 g rjómi, ég notaði laktósafrían frá MS
  • 1 egg
  • 1 msk hörfræmjöl
  • 1/3 tsk kanill
  • 1 tsk sæta, Sukrin Melis

aðferð:

  • Hitið þessa uppskrift í potti þar hún fer að þykkjast örlítið.
  • Setjið þá grautinn í skál, bætið við lögg af rjóma eða möndlumjólk og stráið aðeins af sykurlausum kanilsykri yfir.
  • Það myndi ekki vera verra að strá smá hampfræjum yfir og jafnvel einu tveimur hindberjum svona upp á lookið.