Já þið lásuð rétt, gulrætur… ekki ofarlega á lista þegar kemur að ketómataræðinu en fyrir þær sem aðhyllast lágkolvetnamataræðið þá eru þessar kökur mjög lágar í kolvetnum samt sem áður og innihalda aðeins 100 g af gulrótum sem gera um 7 netcarb og deilist það niður í 12 múffur. Múffurnar eru kryddaðar og mjúkar og dásamlegar með rjómaostakreminu. Ég stórefast um að nokkur finni muninn á þessum og hefðbundnum gulrótarkökum. Þessar er tilvalið að gera í Thermomix enda sér hún um að saxa þeyta og blanda öllu hráefninu.
innihald:
- 2 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 180 g sæta, má blanda Sukrin Gold og Sweet like sugar
- 100 ml kókosmjólk
- 180 g möndlumjöl
- 1 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/3 tsk gróft salt
- 2 tsk kanell
- 1/2 tsk engifer
- 1/4 tsk negull
- 3 msk kókosolía brædd
- 60 g macadamiuhnetur eða pekanhnetur muldar
- 100 g rifnar gulrætur
aðferð:
- Hitið ofninn í 170 ° með blæstri.
- Rífið gulrætur í skálinni 5 sek / hraði 5 og takið til hliðar
- Malið hneturnar gróflega í skálinni 3 sek/hraði 7 og takið til hliðar
- Skolið skál og þerrið.
- Þeytið saman , egg, sætu, vanillu og kókosmjólk með fiðrildaspaðanum, 2 mín / hraði 4.
- Blandið þurrefnum saman í skál ( vigtið ofan á Thermomix lokinu) og bætið út í eggjablönduna og hrærið 30 sek/hraði 2
- Kókosolían fer næst út í ásamt hnetum og gulrótum hrærið 30 sek/hraði 2
- Dreifið deiginu í 12 múffuform og bakið í 25 mín eða þar til pinni kemur hreinn upp úr kökunni. Þessa uppskrift má líka baka í hringlaga formi ef gera á heila gulrótaköku.
innihald krem:
- 180 g rjómaostur
- 50 g mjúkt smjör
- 200 ml rjómi
- 1 tsk vanilludropar
- 1 tsk sítrónusafi
- 40 g fínmöluð sæta
aðferð krem:
- Þeytið saman rjómaost, sætu, smjör, vanillu og sítrónusafa,
2 mín / hraði 1 – 4 varlega takið til hliðar í minni skál - Þeytið kaldan rjóma næst í skálinni 20 sek / hraði 3 ( mögulega aðeins lengur) og þegar hann er nánast fullþeyttur þá má bæta rjómaostablöndunni saman við og þeyta áfram. Kremið verður léttara og betra á þennan hátt.
- Sprautið kreminu á kældar kökurnar og skreytið jafnvel með hnetumulning eða einni flís af gulrót.

