Hampfræbrauð

Það getur verið snúið að baka gott brauð án þess að nota hveiti og ger en það er þó ekki ómögulegt. Mér finnst best að nota sem mest af fræjum, chiaseed mjöli og HUSK og minna af kókoshveiti og möndlumjöli enda eiga brauðin til að bragðast of sæt ef notað er of mikið af slíku. Þetta brauð er svona mitt á milli en ég nota hampfræ í það sem gerir mikið, það er dálítill hnetukeimur sem kemur af hampfræjunum en fyrir utan hvað hampfræ eru mikil snilldar ofurfæða þá bragðbæta þau brauðið til muna.

Hampfræ eru mjög próteinrík og stundum kölluð næringarlega fullkomnasta fæðan. Þau eru rík af omega fitusýrunum 3,6 og GLA og stútfull af E vítamínum. Þau eiga að stuðla að lækkun blóðrýstings, eru bólguminnkandi og góð við gigtareinkennum.
Hampfræ eru talin hjálpleg fólki með þurra húð og exem.

Innihald:

  • 6 stór egg
  • 80 g smjör, brætt
  • 20 g kókosolía, brædd
  • 160 g möndlumjöl
  • 40 g hampfræ
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1/2 tsk Xanthan Gum
  • 1/2 tsk gróft salt

Aðferð:

  • Hrærið eggin vel saman í hrærivél, bætið bræddu smjöri og kókosolíu saman við og þeytið áfram.
  • Blandið þurrefnum saman við, setjið deigið í aflangt form og bakið í 40 mín á 170°hita. Leyfið brauðinu að kólna alveg áður en það er skorið í sneiðar. Það virkar dálítið feitt fyrst en það jafnar sig þegar það kólnar.