Heitt salat, ekta með grillinu

Fyrir langa löngu kom Sigrún vinkona færandi hendi með grænmeti á grillið í matarboð. Því var pakkað inn í álpappír og virtist óttalegt gums í fyrstu. Þetta reyndist svo auðvitað alveg óskaplega gott og ég hef oft gert þetta með mat síðan. Ég elska að henda í svona rétt með grillmat og það er algjör snilld að skera niður og græja allt í salatið fyrir ferðalög, setja allt í álbakka og þá er það klárt á grillið. Það má líka nota álpappír og útbúa hálfgerðan kodda úr honum með grænmetinu og öllu gumsinu innan í. Það er mjög fljótlegt að græja svona meðlæti og auðvitað enn fljótlegra með góðri matvinnsluvél blikk blikk, en gamli góði hnífurinn gengur að sjálfsögðu líka.

Innihald:

 • 2-3 paprikur

 • 1/2 rauðlaukur

 • 5 cm bútur blaðlaukur eða vorlaukur

 • 1 box sveppir

 • brokkolí

 • 1 hvítlaukur

 • það má nota grasker í bitum eða annað grænmeti eins og brokkolí

 • 1 mexícoostur í hring

 • 1 piparostur í hring

 • 5-6 kokteiltómatar

 • 6 msk kotasæla en það er líka gott að nota fetaost eða chilismurost

 • krydd að eigin vali, t.d. timian, rósamrín eða sætkartöflukrydd frá Kryddhúsinu.

 • salt og pipar

aðferð:

 • Skerið allt grænmeti smátt.
 • Rífið ostinn niður og dreifið með grænmetinu.
 • Blandið kotasælu eða fetaosti með í salatið og kryddið eftir smekk.
 • Bakið í eldföstu móti í um það bil 30 mín á 180°C eða þar til kraumar í því.