Heitur risi !! Brauð með aspas.

Heitur brauðréttur er sá allra besti þegar kemur að afmælisveislum og slíku. Þetta er svona “guilty pleasure” matur eða sálarfæði sem er kannski betra íslenskara orð. Þessir brauðréttir klárast yfirleitt fyrstir allra á borðum og meira að segja þessir sem ég geri án brauðs. Það er í raun sama innihald í lágkolvetna útgáfunni fyrir utan brauðið en það er hægt að gera allskonar útfærslur af því. Ég er búin að prófa að gera stóran skammt af örbylgjubollu með möndlumjöli sem var ágætur en þar sem við erum nú að spara kolvetnin þá gerði ég uppáhaldið mitt, Opsie brauðið svo kallaða sem klikkar aldrei, ég nota það líka í saumaklúbbsrúlluna, köldu brauðtertuna og bara nánast í allt. Það má leika sér með ostana sem eru notaðir í deigið en kolvetnaminnstir eru smurostarnir og ég nýtti mér það núna.

brauðið:

 • 4 egg aðskilin rauður, og hvítur
 • 125 g smurostur ég nota sveppaost eða skinkumyrju
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk fínmalað HUSK

aðferð:

 • Þeytið eggjahvítur og vínsteinslyftiduft saman þar til hvítur eru alveg stífar. Takið til hliðar.
 • Rauðurnar eru þeyttar með smurostinum og Husk.
 • Blandið rauðublöndunni saman við hvíturnar og setjið litlar doppur á silikonmottu eða smjörpappír.
 • Bakið í 10-15 mín á 180° hita með blæstri eða þar til þær eru snertiþurrar og góðar.
 • Látið þær kólna og rífið niður í eldfast mót.

fylling:

 • 1 krukka Green giant aspas
 • 125 g beikonsmurostur
 • 2/3 pakki skinka ég nota alltaf 98% kjöt frá Stjörnugrís
 • 1/2 súputeningur, sveppa, grænmetis eða kjúklinga
 • rifinn ostur
 • Best á allt krydd

aðferð:

 • Skerið niður skinku í litla bita
 • Hellið vökva af aspas í pott og hitið upp ásamt smurosti og krafti
 • dreifið skinkubitum yfir skýjabrauðið og þar næst aspas
 • hellið ostasósunni yfir allt gúmmelaðið og dreifið rifnum osti yfir
 • kryddið með góðu kryddi ég nota Best á allt t.d. en það má leika sér með allskonar krydd.
 • Hitið í ofni við 220°C með blæstri þar til brauðið er farið að krauma og osturinn orðinn gylltur og fínn.