Hjónabandssæla- Vinsæl

Ja hérna hér 13. júlí 2020 rann upp bjartur og fagur og fögnuðum við hjónin því 24 ára brúðakaupsafmæli okkar. Við “byrjuðum saman” fyrir heilum 29 árum sem er ótrúlega skrítið þar sem við erum bara rétt rúmlega þrítug 😉 En hvað um það, við giftum okkur árið 1996 í Fríkirkjunni í Hafnarfirði með pompi og pragt ef svo mætti kalla, rjómatertukjóllinn var leigður (var víst notaður í tryggingarauglýsingu líka sem var áhugavert), þjóðbúningur græjaður á kallinn og ég saumaði brúðarmeyjukjólinn á Mekkín. Við gerðum margt sjálf og spöruðum eins og hægt var enda kornung með 3 ára dóttur á kantinum og rétt að skríða út í atvinnulífið. Allir í fjölskyldunni lögðu hönd á plóg, servíettuhringirnir voru föndraðir úr þurrkaðri hvönn, pottréttur var borinn fram í nokkrum lánuðum svörtum ofnpottum eins og allir eiga með loki munið þið og bollan var blönduð úr smygluðum vodka. Hvítvínið var heimabruggað af vinum okkar og var tjúttað og dansað á Garðarholti í bjartri sumarnóttinni langt fram eftir morgni. Við nýgiftu hjónin fórum síðust heim úr partýinu og gengum meira að segja frá því mesta áður en heim var haldið. Það eru eflaust breyttir tímar núna hvað varðar brúðkaupsathafnir og undirbúning en sambandið okkar heldur nú enn þrátt fyrir að við vorum svona pínu heimatilbúin. Mér þótti við hæfi að skella í hjónabandssælu þar sem við erum að fara að krúttast í viku í rigningunni hringinn í kringum landið og við þurfum auðvitað nesti í ferðina. Þessi er mjög góð með bláberjasultunni frá Good good en það mætti líka búa til heimagerða rabbabarasultu og skella ofan á.

Þessi mynd er svo fyndin og lýsir vel þessu brúðkaupi sem var í senn over the top, heimatilbúið og yndislegt allt í bland.
Mekkín og Knútur bróðir sem ég by the tók á móti þegar hann fæddist. Varð svo bomm nokkrum mánuðum seinna enda virkaði þetta mjög easy hjá mömmu.
oooooooo
Mjög alvarlegt mál sko…
24 árum síðar 🙂

Innihald:

  • 120 g sæta, Good good eða Sukrin gold

  • 150 g kalt smjör

  • 1 stórt egg eða 2 lítil

  • 40 g kókoshveiti

  • 100 g möndlumjöl

  • 50 g hakkaðar möndlur, eða heslihnetur

  • 30 g White chia seed meal frá NOW, eðq HUSK í staðinn

  • 150 g bláberjasulta Good good eða sulta að eigin vali

  • 1/2 tsk salt

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk matarsódi

  • Dash af góðum kanel

aðferð:

  • Hitið ofn í 170° með blæstri
  • Blandið öllu saman í matvinnsluvél, þurrefnin fyrst síðan kalt smjör og síðan eggið.
  • Maukið hratt og snöggt svo það myndist hálfgerð mylsna en eftir því sem þið maukið meira því blautara verður deigið í sér.
  • Dreifið deiginu í form, ágætt að miða við hringlaga eldfast form eða silikonform 20×30 cm ca. Skiljið 1/3 eftir af deiginu.
  • Setjið sultuna yfir deigið og klípið síðan afganginn af deiginu hér og þar ofan á sultulagið.
  • Bakið í um það bil 35 mín. Látið kökuna kólna, hún stífnar við að kælast.

Rabbabara og jarðarberjasulta:

  • 800 g frosinn rabarbari

  • 400 g jarðaber

  • 350 g Nicks sæta 1:1 í fjólubláum pokum

  • 50 g chiafræ

aðferð:

  • Setjið rabbarbarann í pott ásamt sætu, sírópi og sítrónusafa.
  • Sjóðið upp sultuna í um það bil 30 mín. Blandið jarðaberjum saman við ef þið viljið fallegri lit í sultuna.
  • Að lokum fer xanthan gum saman við ef þið viljið, hrærið og hellið í krukkur. Notið með lambalærinu, í hjónabandssæluna eða hvað sem er.

Rabarbarasulta:

  • 500 gr frosinn rabarbari

  • 100 g Sweet like sugar

  • 50 g sykurlaust síróp

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1/2 tsk Xanthan gum, má sleppa

  • 6-8 frosin jarðaber, gefur fallegan lit en má sleppa

  • 1/3 tsk salt

aðferð:

  • Látið allt saman í pott og fáið suðuna upp í sultunni. Látið malla við góðan hita í 10-15 mín.
  • Leyfið svo sultunni að malla á lágum hita í um það bil 2-3 klst.
  • Setjið sultu í hreinar krukkur og látið kólna. Gott með hjónabandssælu t.d.