Hrísterta – Vinsæl

Nei haldið á ketti, ýmislegt hef ég nú prófað og séð hjá fólki en hver hefði trúað að purusnakk og súkkulaði færu vel saman? Ég á góða vinkonu fyrir norðan sem er orðin mér ótrúlega kær og hugsar hún um mig eins og dóttur finnst mér, alltaf að skipa mér fyrir og segja mér að passa upp á mig haha og ég er henni svo þakklát. Hún sendi mér risastóran poka af mat með Heimkaup þegar ég var nýgreind með þessa blessuðu Covid óværu og ég fór bara að hágrenja því ég er ekki vön að biðja um hluti og á afar erfitt með það. Fríða ( Fido ) I love you. En allavega hún Fido er matargat eins og ég, elskar að borða góðan mat og er snillingur í að snúa uppáhaldsréttum sínum yfir á lágkolvetna hátt. Nú fór hún alveg yfirum og súkkulaðihúðaði purusnakk og kryddaði með pipardufti… nei halló haha allt er nú til. Ég hafði ekki mikla trú á þessu en ég ákvað að prófa þessa vitleysu. Ég prófaði að nota purusnakkið í karmellunammi, bjó til hrískökubotn og nú er hríssúkkulaði í kæli. Ég ætla að setja hér inn uppskrift af hrískökunni sem er algjör bomba. Holý mólý þetta er svo gott, bara ekki hugsa um hráefnið eitt og sér haha. Þetta er kaka til heiðurs sumrinu. Ég bakaði svampbotn undir úr kökumixinu frá Funksjonell en það má líka nota Jarðaberjaterta bóndans svampbotninn. EF þið viljið sleppa svampnum þá er hægt að þeyta bara rjóma gera karmellu og skella á hrísbotninn með nokkrum berjum kannski. Alveg allt í boði.

Innihald:

 • 1 poki Kims purusnakk ca 90 g , má vera beikon líka

 • 170 g sykurlaust súkkulaði, Sukrin, Cavalier eða Nicks

 • 80 g ósaltað smjör

 • 150 g Sukrin Gold sirup

 • 6 dropar karmellustevía

aðferð:

 • Bræðið niður smjörið í potti.
 • Hræri súkkulaðinu saman við og hitið á vægum hita. Bætið sírópinu saman við og stevíu.
 • Myljið vel niður purusnakkið, í matvinnsluvél eða berjið það niður með einhverju þungu, gott að hafa í poka.
 • Blandið því næst súkkulaðblöndunni saman við puruna og hellið í silikonform.
 • Frystið í 30 mín ca á meðan karamellan er útbúin.

Karmellusósa:

 • 50 g smjör

 • 3 msk Sukrin Gold sirup

 • 40 g Sukrin gold sæta

 • 1 tsk vanilludropar

 • 1/2 tsk sítrónudropar

 • 2 1/2 dl rjómi

 • ögn af salti

aðferð:

 • Byrjið á að hita smjörið í potti, því næst síróp og Sukrin gold. Látið krauma á sirka 6-7 og leyfið karmellunni að dökkna örlítið.
 • Blandið nú vanillu og sítrónudropum saman við og rjómanum og látið karmelluna malla í rólegheitunum á 5-6 í 25-35 mín eða þar til hún þykknar.
 • Þegar sósan er tilbúin þá er hægt að hella henni yfir tertuna. Það er annaðhvort hægt að baka svampkökubotn (uppskrift hér að neðan) og setja undir eða yfir hrískökuna, hrískaka, rjómi, svampur og karmella eða öfugt, eða bera hana eingöngu fram með 2 1/2 dl af þeyttum rjóma á toppnum og karmellusósu sem er hellt í mjórri bunu yfir allt.
 • Ef þið viljið setja nokkur jarðaber/bláber með þá er það fallegt og ferskt líka. Hér er hægt að nota ímyndunaraflið.

Svamptertubotn:

 • 1 pk kökumix Funksjonell

 • 4 egg

 • 1 dl vatn

 • 1 dl olía

 • 1 dl sýrður rjómi

 • 1 tsk vanilludropar

aðferð:

 • Hrærið öllu innihaldi vel saman í hrærivél. Hellið deiginu í form, jafnstórt og hrísbotninn.
 • Bakið á 170° með blæstri í 30 mín. Gæti ekki verið fljótlegra.
 • Kælið kökuna, smyrjið með smá karamellusósu, setjið rjóma yfir og næst hrískökubotninn og endið með að hella restinni af karamellunni yfir allt.

Ef þið viljið baka svamptertubotn frá grunni þá mæli ég með þessum hér: Þessi kaka er svo einföld og góð svo ég mæli svo sannarlega með hann í svo margt.

https://mariakrista.com/jardaberjaterta-bondans/

Hér nota ég minn svamptertubotn og snéri kökunni á kvöld til að auðvelda skurðinn.
Sjúklega góð karamella