Já það er stóra spurningin, hvernig byrjar maður á svona stóru verkefni ? Við hófumst í raun handa löngu áður með samtali við Jóhann Sigurðsson arkitekt hjá Tendra varðandi mögulegar breytingar og hugmyndavinnan tók alveg rúmt ár. Það sem þarf að huga að í öllum framkvæmdum er að temja sér þolinmæði því öll undirbúningsvinna er jafn mikilvæg og tímafrek og sjálf framkvæmdin. Ég ákvað að ef ég ætlaði að halda geðheilsu í þessu verkefni þá þyrfti ég fyrst og fremst að vera þolinmóð og skipulögð.
Við Börkur erum ólík að mörgu leyti hvað varðar að sjá hlutina fyrir sér, ég get ímyndað mér nákvæmlega hvernig herbergi mun koma út en hann vélfræðingurinn þarf að mæla og máta til að sýnin verði að veruleika. Það komu því auðvitað upp árekstrar eins og gengur og gerist en samt var markmið okkar beggja að sjálfsögðu að sjá húsið rísa og klára þetta á takmörkuðu fjármagni sem og vinna mikið sjálf í því. EKKERT MÁL
Ég tók að mér snemma í ferlinu að halda utan um verkefnastjórn, ég á auðvelt með að skrifa pósta og óska eftir tilboðum í hitt og þetta og tímastjórnun liggur ágætlega fyrir mér. Börkur er hinsvegar betri í fjármálum og bókhaldi og því gekk samvinnan mjög vel í undirbúningnum.
Við tókum fljótlega ákvörðun um að best væri að kaupa forsmíðaðar einingar úr CLT efni, okkur leist mjög vel á efniviðinn, krosslímdur viður sem er umhverfisvænn og einangrar vel og það heillaði auðvitað líka hversu fljótlegt er að reisa hús úr slíkum einingum. Við vildum forðast mikið rask á lóðinni og ef við hefðum staðbyggt þ.e.a.s. reist hús á staðnum fjöl fyrir fjöl þá hefði tímavinna iðnaðarmanna mögulega farið með fjárhaginn og fannst okkur hagkvæmara að velja einingarnar frá Element. Þeir skipta við fyrirtæki í Austurríki og það mætti líkja þessu við að byggja piparkökuhús, hver hlið er skorin út eftir teikningum byggingaverkfræðings hjá Element sem reiknar út burðarþol og skilar inn öllum teikningum sem viðkoma burði. Við þurftum að útvega sjálf 2 burðarbita en annars kom allt tilbúið að utan, meira að segja skrúfurnar.
Fyrsta skrefið var þó að fá leyfi hjá bæjaryfirvöldum og byrjuðum við að teikna upp húsið í desember árið 2020, Í janúar 2021 var sótt um breytingu á deiliskipulagi sem var nauðsynlegt þar sem húsið er á vernduðu svæði og kallaði á aukið nýtingahlutfall lóðar. Við sóttum síðan um byggingaleyfið í apríl 2021. Það var þó ekki hægt að veita leyfið fyrr en allar teikningar voru komnar í hús þ.e.a.s burðarþol, rafmagn, pípur og aðaluppdrættir og guð minn góður hvað sú bið varð erfið og löng. Burðarþolsteikningar komu ekki í hús fyrr en í lok ágúst en þá var búið að panta húsið sem var komið í framleiðslu og væntanlegt í reisingu þann 20. september 2021. Það má því segja að við höfum safnað nokkrum gráum hárum í stressi því ekki má reisa hús nema hafa byggingarleyfi sem kom loks í hús þann 31. ágúst.
Við gátum þó undirbúið komu eininganna um sumarið en það þurfti að steypa upp styrktarvegg í kringum húsið sem er byggt úr holsteini. Jamm endless áskoranir en með útsjónarsemi og smíði á stálsúlum með syninum sem reistar eru allan hringinn í kringum húsið þá gekk þetta upp og við erum handviss um að sterkari grunnur undir hús sé vandfundinn.
Spólum aðeins aftur til baka…
Áður en hægt var að reisa nýju hæðina á fyrstu hæðinni þurfti að rífa gamla risið og héldum við nú að það yrði lítið mál, einn sveppalaga skorsteinn, gamalt bárujárn og nokkrar spýtur. Annað kom þó í ljós þegar klæðningin var rifin af veggjum en þá kom í ljóst steyptur veggur allan hringinn í kringum hæðina, þetta var svokallað port sem þaksperrur eru steyptar ofan í og vandaðist málið töluvert því nýja hæðin átti að kjaga út fyrir fyrstu hæðina og því ekkert annað í stöðunni en að kalla á steypusögunargæja. Byggingastjórinn okkar sem er gull af manni reddaði okkur auðvitað samböndum en hann er búinn að vera okkur til halds og trausts allan tímann. Vitið þið hvað er erfitt að ráða byggingastjóra ? Það er töluvert mál skal ég segja ykkur.
En allavega hann Steini hjá Mbrothers mætti á svæðið með bróður sínum Tóta og tók þeir út verkið. Þetta voru nokkur tonn af steypu auk skorsteins sem þurfti að fjarlægja og á tímapunkti þá lá við uppgjöf af okkar hálfu. Svona atriði settu strik í fjárhaginn en það þurfti samt að leysa þetta mál.
Tímastjórnun er mjöööög mikilvæg og við þurftum að tímasetja allar framkvæmdir vel þar sem við áttum von á fletinu með einingunum okkar sunnudaginn 19. september og sú aðgerð er nánast efni í annað blogg.
Mbrothers þurftu líka að opna gólfið á fyrstu hæðinni þar sem nýr stigi átti að tengja hæðirnar og allt þetta þurfti að gerast á nokkrum dögum svo hæðin væri tilbúin fyrir einingarnar og reisingu dagsett mánudaginn 20.september. Stressandi ? já smá. Og var von á rigningu ? Já !!!!
Snillingarnir frá Mbrothers mættu á tilsettum tíma með allar græjur og sólskinsskap og afgreiddu verkefnið fljótt og örugglega. Ef ég get ráðlagt fólki eitthvað í sambandi við framkvæmdir þá er það að ráðast ekki í steinbrot og sögun sjálf með slípirokk eða einhverjum æfingum. Það gæti hreinlega gert útaf við fólk og margborgar sig að fá fagmenn í svona vinnu. Það þurfti krana, losunargáma og allskonar bras svo um að gera að spara ekki þarna. Þetta var þvílík subbuvinna og þung steypa, mæli bara alls ekki með að gera þetta sjálf.
Sjálft rifrildið á þaki og veggjum tók sinn tíma og náðum við Börkur og krakkarnir ásamt tengdapabba að fjarlægja allt timburverk áður en Mbrothers mættu í sögunarvinnuna. Ég mæli með að tala við Furu ef það á að rífa timbur og stál en þeir útvega gáma sem þeir sækja eftir niðurrif.
Ég held að ég láti myndirnar tala sínu máli hér í þessum pósti og haldi áfram með reisinguna í næstu póstum. Takk fyrir að nenna að lesa.